Upplýsingagjöf um aðgerðir í efnahagsmálum

Mánudaginn 10. nóvember 2008, kl. 15:05:22 (862)


136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

upplýsingagjöf um aðgerðir í efnahagsmálum.

[15:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þó að í símskeytastíl verði sé ég mig knúinn til að ræða við hæstv. forsætisráðherra um stöðuna í því sem kalla má meintar yfirstandandi björgunaraðgerðir í efnahagsmálum og ekki síður þó hvernig ríkisstjórnin hyggst standa að upplýsingagjöf til almennings. Við finnum öll reiði- og óánægjuöldurnar rísa æ hærra í þjóðfélaginu. Þær eru skiljanlegar og meira en það, þær eru réttmætar. Íslenska þjóðin á betra skilið en það sem mætir henni nú.

Ríkisstjórnin verður að skynja ábyrgð sína við þessar aðstæður og auðvitað Alþingi allt. Almenningur á heimtingu á upplýsingum, almenningur verður að geta treyst því að mál verði rannsökuð og menn axli ábyrgð. Og, hæstv. forsætisráðherra, er eftir nokkru að bíða? Er ekki tímabært að gefa þjóðinni skýrt og bindandi fyrirheit um að um leið og aðstæður leyfa verði boðað til kosninga? Lýðræðið er það tæki sem við höfum, það úrræði sem stjórnskipun okkar byggir á til að leysa úr aðstæðum eins og þeim sem nú eru komnar upp á Íslandi. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að verja heimilin og atvinnulífið næstu daga, næstu vikur? Þau mál þola ekki bið. Hæstv. ríkisstjórn verður að átta sig á því að nánast hver einasti dagur sem líður í óvissu og aðgerðaleysi er ákaflega dýrkeyptur. Hann er það gagnvart ástandinu í þjóðfélaginu, hann er það í reynd gagnvart fyrirtækjum sem eru að komast í þrot og gagnvart fólki sem er að missa vinnuna. Við verðum öll að vanda okkur við að glíma við þessar aðstæður til að komast sem klakklausast frá þeim. Þess vegna bið ég hæstv. forsætisráðherra að upplýsa hér hvernig ríkisstjórnin hyggst standa að þessum hlutum hvað varðar upplýsingagjöf til almennings, kynningu á stöðunni og því sem gert verður næstu daga og vikur til að rétta þjóðarbúið af.