Frestun framkvæmda í samgöngumálum

Mánudaginn 10. nóvember 2008, kl. 15:37:25 (880)


136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

frestun framkvæmda í samgöngumálum.

[15:37]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta nema því að við skulum hafa í huga þær geysilega miklu fjárskuldbindingar sem eru í gangi og munu koma til greiðslu á öllu næsta ári, hinar miklu framkvæmdir sem eru í gangi nú þegar. Við þurfum að greiða miklar upphæðir á næsta ári og margar framkvæmdir verða í gangi sem þegar eru hafnar.

Ég vil bæta aðeins við þetta, virðulegi forseti, vegna þess að ég hygg að hv. þingmaður hafi ekki tekið það með þegar hann spurði um þetta en hefur auðvitað mikil áhrif líka, þ.e. verðbætur og sú verðbólga sem hefur hækkað mjög framkvæmdakostnað við ýmis verk. Meðan við fáum ekki meira fé inn verðum við auðvitað að taka upp áætlanir og skoða málin hvað þetta varðar. Og síðast en ekki síst, virðulegi forseti, skulum við gera okkur grein fyrir því að tilboð sem við höfum verið að fá í verk eru miklu hærri en þær kostnaðaráætlanir sem við unnum með þegar samgönguáætlun var gerð.

Þegar öllu er á botninn hvolft, virðulegi forseti, held ég að það sé skynsamleg ákvörðun að (Forseti hringir.) doka aðeins við. Það er ekki verið að tala um að fresta öllu. Við vitum ekki hvað kemur út úr þessu en við vitum það, bæði ég og hv. þingmaður, að sum verk eru mikilvægari en önnur og sum verk hafa beðið allt allt of lengi. (Gripið fram í: Ekki …)