Umgengni um nytjastofna sjávar

Mánudaginn 10. nóvember 2008, kl. 18:57:33 (937)


136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:57]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Hvernig náum við fram hámarksarði af íslenskum sjávarútvegi? Ég hef átt mér draum um íslenskan sjávarútveg — ég segi eins og Martin Luther King sagði: „I have a dream“ — ég á mér þann draum að allur fiskur fari á fiskmarkað og ég á mér þann draum að aðskilja veiðar og vinnslu. Ég á mér þann draum að bjóða upp allar veiðiheimildir á Íslandsmiðum, þ.e. helst hefði ég viljað bjóða þær upp í dögum í stað kílóa og tonna til að koma í veg fyrir brottkast.

Fiskvinnsla án útgerðar er arðbærasta eining íslensks sjávarútvegs. Fiskvinnslufyrirtæki sem þurfa að borga hæsta verð á markaðnum fyrir allt hráefni sitt og eiga hvorki kvóta né útgerðir eru arðbærustu einingarnar í íslenskum sjávarútvegi. Þó að fyrirtækin hafi stundum ekki verið rekin með hagnaði, heldur jafnvel í tapi eru þau arðbærust fyrir þjóðarbúið.

Auðvitað er rétt, eins og Gunnar hjá Flúðafiski segir, að menn og frystiskip eiga að hirða hausa og hryggi. Auðvitað er gott að hirða lifur, hrogn og svil á vetrarvertíðinni. Allt of lítið er lagt upp úr því að reyna að nýta allt sjávarfang sem best. Þegar Samkeppnisstofnun hefur skoðað eða unnið í sjávarútvegi, verðlagningu á fiski og annað þess háttar, hefur hún vísað frá málum. Verðlagsstofa borgar helmingi lægra fiskverð en markaðirnir og ekki er skrýtið þó að útgerðarmenn vilji fá fiskinn á helmingi lægra verði en fiskmarkaðirnir borga. En það er ekki arðbærast fyrir sveitarfélögin eða skatttekjur ríkisins af launum sjómanna, það er ekki arðbærast fyrir hafnirnar að hafnargjöld séu borguð af 150 kr. en ekki 300 kr. og svo mætti lengi telja hvaða áhrif þetta hefur á sveitarfélög og fólk með einum eða öðrum hætti.

Nú eru sérstakar aðstæður, þetta kreppuástand sem við erum í, og þess vegna þurfum við að reyna að búa til og nýta okkur alla þá möguleika sem við höfum til að ná sem mestum verðmætum úr hafinu og þess vegna m.a. að bæta við þorskkvóta og síldarkvóta og fleiri tegundum, löngu, keilu, skötusel og ýmsu sem getur hjálpað okkur verulega að laga stöðuna. Skuldir sjávarútvegs eru náttúrlega með þeim hætti að á næstu dögum og vikum verður farið ofan í kjölinn á þeim og við stöndum kannski frammi fyrir því að þurfa að játa að 90% fyrirtækja í sjávarútvegi eigi ekki fyrir skuldum og það verður einhvers konar kennitöluflakk hjá mörgum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Ég hef stundum sagt að fiskveiðistjórnarkerfið sé mesta mismunun og rán Íslandssögunnar og sjávarútvegurinn er ríkisstyrktur. Það er ríkisstyrkur að leyfa mönnum að veðsetja, leigja og selja veiðiheimildir af óveiddum fiski í sjónum.

Við höfum horft upp á að fyrirtæki í sjávarútvegi sem eiga kvóta og geta verðlagt hann upp úr sjó á því verði sem þeir vilja borga og treysta sér til samkvæmt Verðlagsstofu, hafa í sumum tilfellum rænt útflutningsmörkuðum af fiskvinnslufyrirtækjum sem hafa búið til markaði. Mér er sérstaklega hugsað til markaðarins í Belgíu á karfaflökum, en þar lék fyrirtæki, sem borgaði sjómönnum sínum 50 kr. verð fyrir fyrir karfann upp úr sjó á sama tíma og hann var á 80–100 kr. á markaðnum og jafnvel upp í 110 kr., sér að því að bjóða 200 kr. lægra verð fyrir hverja einingu af flökum en fyrirtækið sem hafði byggt upp markaðinn.

Ég endurtek það aftur, sjómenn á Íslandi sem eru verðlagðir í gegnum Verðlagsstofu fá helmingi (Forseti hringir.) lægra verð en þeir sem eru á fiskmarkaði.