Íbúðalánasjóður

Miðvikudaginn 12. nóvember 2008, kl. 14:29:20 (1036)


136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

Íbúðalánasjóður.

108. mál
[14:29]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að fá skýrari svör en komu fram hjá hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar því að spurt er um áform ríkisstjórnarinnar. Hyggst hún draga til baka þau áform sem kynnt hafa verið um framtíð Íbúðalánasjóðs? Það hefur ekki komið skýrt fram. Það hefur hins vegar komið fram af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra að hann þurfi að semja nýjan stjórnarsáttmála. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Á að standa í þeim stjórnarsáttmála að Íbúðalánasjóður starfi eins og hann er eða eins og áform hafa verið kynnt um að hann verði? Er að mati hæstv. ráðherra eitthvað um það í nýja stjórnarsáttmálanum að draga til baka kæru viðskiptabankanna til ESA? Hæstv. ráðherra getur ekki verið trúverðugur í þessu máli ef hann segir eitt en ríkisstjórnin framkvæmir annað. Það er algerlega óásættanlegt og gerir ekkert annað en þyrla ryki í augu kjósenda vegna þess að niðurstaðan er sú að sú stefna er framkvæmd sem boðuð hefur verið.