Icesave-deilan við ESB

Mánudaginn 17. nóvember 2008, kl. 15:26:15 (1138)


136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

1. fsp.

[15:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra nánar eftir því máli sem var til umræðu áðan og þá er færi á að endurtaka spurningar sem bornar voru upp hér, m.a. til hæstv. utanríkisráðherra, og ekki fengust svör við.

Mig fýsir mjög að vita hvenær ríkisstjórn Íslands ákvað og gaf embættismönnum fyrirmæli um að Íslendingar gengju inn á hið svokallaða samkomulag sem nú er talað um í Icesave-deilunni. Var það síðdegis á fimmtudag eða var það á föstudag? (Gripið fram í.) Hverju sætir að farið var að kynna fyrir einstökum aðildarríkjum Evrópusambandsins fyrir helgi drög að meintu samkomulagi við Íslendinga ef Íslendingar voru ekki sjálfir búnir að fallast á það? Var það tilviljun að innihaldsrýr svo ekki sé sagt innihaldslaus pakki um aðstoð við heimili var kynntur á föstudaginn, daginn fyrir mótmælafundinn hér í borginni á laugardag, en þagað um uppgjöfina í Icesave-deilunum fram á sunnudag, því að þetta er auðvitað ekkert annað en uppgjöf, ósigur, tap? Og það eru einhver mestu öfugmæli sem ég hef lengi heyrt að tíminn hafi unnið með okkur í þessu máli. Á hvern hátt? Þegar skoðaðar eru yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra sjálfs frá því fyrir nokkrum dögum tekur hann af skarið um að það komi ekki til greina að láta kúga okkur í þessu máli, að við munum ekki semja frá okkur réttinn til þess að fá lögformlega niðurstöðu fyrir dómstólum eða gerðardómi.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði t.d. 24. síðasta mánaðar að skuldbindingarnar samkvæmt þessu séu svo miklar að það sé óviðráðanlegt að binda þjóðinni þá bagga, og hæstv. iðnaðarráðherra talaði um afarkosti Breta og fleiri í þessum efnum svo í eitthvað sé vitnað. Hér er því á ferðinni uppgjöf ríkisstjórnarinnar. Menn gætu auðvitað sagt að þeir hafi haldið þannig á málum og spilað sig svoleiðis út í horn að þeir eigi ekki nema einn nauðungarkost í stöðunni en það er ekki glæsileg málsvörn og ég öfunda hæstv. ríkisstjórn ekki af því.

Er það rétt að þetta sé pakki upp á um 640 milljarða kr. brúttó með óvissu um hvað upp í hann hefst (Forseti hringir.) til viðbótar um 810 milljörðum sem pakkinn hjá IFM er, reiknaður út á núverandi meðalgengi Seðlabankans? Erum við sem sagt að tala um (Forseti hringir.) 1.450 milljarða kr. brúttó sem ríkisstjórnin án samráðs við Alþingi er að rífa af þjóðinni með gjörðum sínum þessa dagana?