Fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum

Fimmtudaginn 20. nóvember 2008, kl. 15:47:05 (1267)


136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:47]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er eðlilegt að menn, þingmenn sem aðrir, reyni að verja sig. Hv. þm. Árni Páll Árnason reynir að verja sig og sitt lið, sína ríkisstjórn. Honum tekst það náttúrlega ekki. Hann skilgreinir hvorki orsök né afleiðingar af hruninu sem við stöndum frammi fyrir og talar um að það séu eðlileg skilyrði sem við erum að fara að vinna eftir. Það er auðvitað fásinna og það er út í hött að tala um að við búum við eðlileg skilyrði. Við erum þvingaðir til þess að hafna því að láta reyna á þennan samning fyrir dómstólum. Við fáum ekki að fara með þetta fyrir gerðardóm og ríkisstjórnin hefur ekkert gert í því að fara í málaferli út af hryðjuverkalögunum frá Bretunum á okkur.

Það er ekki hægt að sætta sig við slíkan málflutning og slík vinnubrögð í þeirri stöðu sem við erum í. Þetta er mjög slæm staða. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra — það á að skipta um fólk í öllum þessum störfum. Ríkisstjórnin á að sjá sóma sinn í að segja af sér.

Að hafa 18% stýrivexti geta aldrei talist eðlileg skilyrði og þeir eiga jafnvel að hækka meira en það. Það verða aldrei eðlileg viðskipti. Það er búið að setja heila þjóð á hausinn og svo stendur til að fara að vera með einhverjar tilraunir með að setja krónu á flot sem enginn veit hvað á að þýða. Verður þá 40–50% verðbólga eða jafnvel meira og enn meira hrun (Forseti hringir.) en ella?