Fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum

Fimmtudaginn 20. nóvember 2008, kl. 18:36:14 (1313)


136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur umboð þjóðarinnar frá síðustu alþingiskosningum. Hún hefur það umboð þar til kosið er næst, það er ekki flóknara en það.

Ríkisstjórnin er í dag rúin trausti, segir hv. þingmaður. Hún er það ekki í mínum huga og ég ítreka enn að ég treysti þessum flokkum betur en nokkrum öðrum flokkum til að leiða þjóðina út úr þeim vanda sem við blasir, (ÁÞS: Ég trúi þessu bara ekki.) svo að það komi skýrt fram. Hv. þingmaður segist ekki trúa þessu, það er nú samt sem áður þannig.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi Vinstri grænna á Alþingi, þekkir mætavel skoðanir mínar í mörgum efnum og mörgum málum. Ég treysti hins vegar ekki, og verð að fá að segja það, hv. þingmaður, stjórnmálaskoðunum Vinstri grænna til þess að leiða þjóðina út úr þeim vanda sem við blasir. Mér hefur fundist að sá flokkur standi fyrir alræði forsjárhyggjunnar og sú pólitík, sú stefna, hugnast mér í engu þó að ég geti tekið undir ýmis mál sem Vinstri grænir hafa borið fram. Þau mál eru að mörgu leyti þörf og vissulega þess virði að til þeirra sé horft og tekið tillit, en gegnumsneitt treysti ég ekki flokki sem mér þykir hlynntur alræði forsjárhyggjunnar til að leiða þjóðina (ÁÞS: Í umboði hans hefur þú nú starfað.) mína út úr þessu. Já, hv. þingmaður, ég var í samstarfi við Vinstri græna í Mosfellsbæ og þar er enn samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna (Forseti hringir.) og gengur ágætlega.