Íslenska ákvæðið og fundur um loftslagsmál í Kaupmannahöfn

Þriðjudaginn 25. nóvember 2008, kl. 14:19:21 (1472)


136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

íslenska ákvæðið og fundur um loftslagsmál í Kaupmannahöfn.

[14:19]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og kom fram í máli hans þá fékk Ísland eitt iðnríkja eða svokallaðra Annex I ríkja í Kyoto-bókuninni að auka losun sína innan Kyoto-tímabilsins sem nú stendur yfir, 2008–2012. Á meðan önnur ríki þurftu að draga saman fékk Ísland að auka losun um 10% sem flestir sem tóku þátt í að semja um það segja að hafi verið m.a. vegna þess að önnur ríki tóku tillit til þess að Ísland hafði á 8. áratugnum og þeim 9. sett á hitaveitu í landinu eins og við vitum sem er, má segja, nær einstakt á heimsvísu. Þá var einnig samið um svokallað íslenskt ákvæði, ákvörðun 14/CP.7 sem var síðan gengið formlega frá. Það var ekki samið um hana í Kyoto 1997 en gengið var formlega frá henni í Marrakesh 2001, ef ég man rétt.

Eins og hv. þingmaður veit hafa þessi mál verið til stöðugrar umræðu, bæði í ríkisstjórn og stjórnarflokkum samkvæmt þeim samningsmarkmiðum sem lögð voru fram fyrir Balí-fundinn í fyrra og eru þau samningsmarkmið sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér til og með aðildarríkjafundinum í Kaupmannahöfn sem verður í desember 2009. Ég get einnig upplýst þingmanninn um að skipuð hefur verið af hálfu stjórnvalda formleg samninganefnd sem í eiga sæti fulltrúar sjö frekar en átta ráðuneyta, allra þeirra ráðuneyta sem með einhverjum hætti koma að eða hafa með loftslagsmál að gera. En eins og þingmenn vita eru þau mjög víðfeðm þannig að undirbúningur er í fullum gangi og ég mun þá auðvitað reyna að svara því ef ég fæ tækifæri til að koma aftur upp.