Skipalyftan í Vestmannaeyjum

Fimmtudaginn 04. desember 2008, kl. 10:51:15 (1724)


136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

skipalyftan í Vestmannaeyjum.

[10:51]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Málefni skipalyftunnar í Eyjum hafa verið lengi og sumir segja auðvitað allt of lengi í kerfinu. Sem þingmaður í samgöngunefnd á síðasta kjörtímabili vann ég að samgönguáætlun og man eftir því að þar voru settar inn 200 millj. kr. sem voru eyrnamerktar skipalyftunni í Vestmannaeyjum vegna viðgerða.

Hins vegar er það rétt sem hv. þingmaður minnist á að málinu var skotið til ESA og þar hefur það verið mjög lengi. Eftir því sem ég veit best er ekki enn komin skrifleg niðurstaða frá ESA en ég bendi á að það verkefni er á vegum fjármálaráðuneytis. Við í samgönguráðuneytinu höfum hins vegar átt a.m.k. tvisvar sinnum fund með fulltrúum ESA, í annað skiptið hér heima og í hitt skiptið úti, þar sem þetta var rætt.

Ég ítreka að skrifleg niðurstaða er ekki komin þó svo að menn á vegum ráðuneytanna tveggja séu farnir að tala um að niðurstaðan sé komin. En vonandi verður hún á þann veg að ESA muni ekki koma og lemja okkur í hausinn fyrir þá leið sem verður valin, að það verði samþykkt leið.

Ég átti nýverið fund með fulltrúum frá skipalyftunni í Vestmannaeyjum og bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum á aðalfundi SSS, Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi, þar sem farið var vel yfir þetta mál og það rætt. Í framhaldi af því hefur það verið í vinnslu hjá aðstoðarmönnum, annars vegar mínum og hins vegar aðstoðarmanns hæstv. fjármálaráðherra, og ég hef fulla trú á því að málið sé að þokast vel áfram. En vegna þeirra atriða sem skotið var til ESA og er verið að ræða þar, og ég tek það skýrt fram að það er fyrst og fremst þess vegna sem tafir hafa orðið á málinu. Það er rétt (Forseti hringir.) að hafa það líka í huga, virðulegi forseti, — ja, ég kem kannski að því í síðari ræðu.