136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, o.fl.

124. mál
[20:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki koma öllum réttindum niður á gólfið, alls ekki. Ég geri mér hins vegar fullkomlega grein fyrir því að þetta er allt saman greitt af einhverjum og það er kannski munurinn á mér og hv. þingmanni að ég geri mér grein fyrir því að þetta er greitt af einhverjum, þetta er greitt af hinum vinnandi manni í þjóðfélaginu, hvort sem hann er opinber starfsmaður eða ekki. Spurningin er: Hvað ætlum við að lesta fólk mikið á vinnuævinni þegar það er að koma sér upp börnum, húsnæði, atvinnurekstri og koma undir sig fótunum, námi o.s.frv., hvað ætlum við að lesta það mikið svo það hafi það mjög gott í ellinni? Þetta þarf að vega og meta. Þetta er ekki spurningin um að koma einhverjum réttindum niður á gólflistann, alls ekki. Það er bara að vega og meta, á fólkið að hafa góð lífskjör þegar það er að koma upp börnum og koma sér upp húsnæði eða þegar það er komið á eftirlaun? Um þetta snýst í rauninni deilan, um það hvað iðgjaldið eigi að vera hátt og hvað réttindin eigi að vera mikil. Það er svo einfalt.

Svo varðandi það að lífeyrisréttindi hafi batnað mikið hjá almennu sjóðunum, það held ég að sé ekki almennt, langt í frá. Margir sjóðir standa illa og hafa ekki getað bætt kjör sín þrátt fyrir góða ávöxtun, þrátt fyrir risaávöxtun undanfarinna góðæra sem núna slær allt til baka. Ég hugsa að næsta haust munum við upplifa — við erum reyndar að setja lög um að það taki ekki gildi, það liggur frumvarp um það fyrir Alþingi að það eigi að víkka mörkin fyrir lífeyrissjóðina. En ég hygg að áfallið núna eigi eftir að rýra kjör margra lífeyrissjóða á sama tíma og hugsanlega þarf að hækka iðgjaldið til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem hefur föst réttindi sem þetta fólk borgar. Og ég veit ekki hvað maðurinn sem er með 70 þús. kr. úr lífeyrissjóði segir — hann er skertur — ef hann á að borga meiri skatta til þess að opinberi starfsmaðurinn haldi sínum réttindum óskertum.