Tilhögun þinghalds o.fl.

Miðvikudaginn 10. desember 2008, kl. 13:54:55 (2013)


136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Eins og þingmenn ættu að vita hefur ekki staðið á mér að kalla eftir upplýsingum á vettvangi viðskiptanefndar. Ég hef verið iðinn við að kalla saman ýmsar upplýsingar á þeim vettvangi eins og þingmenn í þeirri þingnefnd vita.

Mig langar hins vegar að bregðast aðeins við ummælum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Í ljósi þess máls sem hún gat um áðan, tengsla KPMG við stærstu eigendur og viðskiptavini bankans, dreg ég í efa hæfi þeirra til að fjalla um þetta tiltekna mál. Í ljósi þeirra tengsla sem hafa komið fram finnst mér aðkoma KPMG að þessu verkefni vera óeðlileg og bjóða upp á tortryggni. Það skiptir miklu máli að úttektir af þessu tagi séu hafnar yfir allan vafa og ég geri ráð fyrir að KPMG sé því sammála. Ég hef fengið þær upplýsingar frá skilanefnd Glitnis að annað endurskoðunarfyrirtæki muni taka þetta verkefni að sér. Þar kemur allt til skoðunar, ekki bara úttekt á störfum KPMG í þessu máli.

Þetta er mikið fagnaðarefni að mínu mati, enda ljóst að við verðum að vanda okkur í þessu máli öllu. Þátt endurskoðunarfyrirtækja hefur hins vegar að mínu mati vantað í umræðuna um bankahrunið og orsakir þess, en ábyrgð þeirra fyrirtækja er gríðarlega mikil.

Annars finnst mér mikið púður fara í að fjalla um hugsanleg mistök stjórnsýslunnar en minna í ábyrgð eigenda og stjórnenda bankanna. Auðvitað á að rannsaka ábyrgð eftirlitsaðila og stjórnvalda en það er alveg ljóst að meginorsök falls bankanna er ekki bágu eftirliti ákveðinna stjórnvalda að kenna. Hún liggur auðvitað hjá bönkunum, það voru þeir sem tóku þessar ákvarðanir, það voru þeir sem skuldsettu sig fram úr öllu hófi og það voru þeir sem keyrðu okkur öll út af veginum.

Frú forseti. Lögreglan getur aldrei ábyrgst hraðakstur ökumanna þótt hún beri ábyrgð á eftirlitinu. Við skulum hafa það í huga þegar við gerum þetta mál upp í umræðunni. Ég kalla (Gripið fram í.) eftir skýrari og meiri fókus í umræðuna á ábyrgð þessara einstaklinga sem tóku ákvarðanir sem urðu til þess (Forseti hringir.) að 90% af íslensku fjármálakerfi hrundi með þeim hætti sem það gerði. (Gripið fram í.)