Tímabundnar ráðningar í utanríkisráðuneytinu

Fimmtudaginn 11. desember 2008, kl. 10:43:51 (2054)


136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

tímabundnar ráðningar í utanríkisráðuneytinu.

[10:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa það að eins og ýmsir aðrir þingmenn fer ég stundum inn á bloggsíður. Ég villtist inn á bloggsíðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur í fyrradag og þar sá ég að hún var einmitt að blogga um það að ekki hefðu borist nein svör frá utanríkisráðuneyti, það hefði bara sagt pass við þessari fyrirspurn. Ég verð að játa að mig rak í rogastans yfir að þetta skyldi hafa gerst, fletti þá upp á þessari fyrirspurn þingmannsins og sá að það var ekkert svar frá utanríkisráðuneytinu. Ég hafði samband við ráðuneytið og spurði hverju þetta sætti. Það svar sem ég hef fengið frá starfsmannastjóra ráðuneytisins er að þessi beiðni hafi einfaldlega ekki komið inn á hans borð einhverra hluta vegna og hann ætlar að skoða málið fyrir mig í framhaldi af þessu. Þarna eru væntanlega einhver mistök á ferðinni sem ég bið þá bara forláts á en ég hef a.m.k. sett það í gang að það sé skoðað hvernig það megi vera að beiðni um svar við þessari tilteknu fyrirspurn hafi ekki komið til starfsmannastjóra ráðuneytisins.