Ríkisútvarpið ohf.

Fimmtudaginn 11. desember 2008, kl. 13:30:32 (2094)


136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[13:30]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem liggur fyrir um breytingu á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið, felur í sér margar og mjög viðamiklar breytingar á Ríkisútvarpinu ohf. og auglýsingum, tekjustofnum og öðru sem þar að lýtur.

Alltaf hlýtur að vera spurt hversu mikið ríkið á að skipta sér af einstökum þáttum í þjóðfélaginu og hvort eðlilegt sé að ríkisvaldið standi fyrir og reki fjölmiðil eins og Ríkisútvarpið. Ég hef í gegnum tíðina haft töluverðar efasemdir um að rétt sé að standa þannig að málum.

Í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. eru sett ákveðin ákvæði um hlutverk og skyldur þess. Það á að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Senda út til landsins alls og næstu miða hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá og framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni. Fræða og gera dagskrárþætti og halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi, flytja fjölbreytt skemmtiefni o.s.frv.

Ég hef stundum velt fyrir mér hvort því mikla fé, sem kemur til Ríkisútvarpsins í gegnum þvingaða áskrift allra þjóðfélagsþegna sem eiga útvarp eða sjónvarp, væri ekki betur varið ef það yrði notað til að sinna markmiðunum sem talin eru upp í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið og deilt til stofnana og fjölmiðla sem gætu haft þessa þjónustu á hendi.

Ég tek heils hugar undir að nauðsynlegt er að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. En ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst Ríkisútvarpið ekki hafa gætt þess sem skyldi í starfsemi sinni undanfarin ár að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð þannig að sómi sé að.

Fjölmiðlar gegna ákveðnu öryggishlutverki og þar geta atriði skipt máli sem réttlæta að ríkið komi inn í rekstur fjölmiðils. Að fjölmiðill nái til allra landshluta og miðanna til að koma að fréttum, tilkynningum og öryggisatriðum sem þurfa að koma fram og verður ekki betur komið fram en í gegnum ljósvakamiðlana. Það getur í sjálfu sér réttlætt ákveðna starfsemi opinbers miðils.

Hins vegar er spurning hvort Ríkisútvarpið eða sá miðill sem þarf til að gæta að þessum öryggisatriðum þarf að vera það bákn sem Ríkisútvarpið er. Hvort nauðsynlegt sé að viðhalda afþreyingarútvarpsstöð og afþreyingarsjónvarpi til viðbótar við allt sem í boði er, m.a. í tölvutengdu formi eins og fjölmiðlun háttar til núna. Þegar það er skoðað verður ekki séð að þau gríðarlegu útgjöld sem skattborgararnir bera af rekstri Ríkisútvarpsins séu afsakanleg. Það liggur fyrir að langt er síðan að gera hefði þurft mjög mikilsverðar og mikilvægar skipulagsbreytingar á Ríkisútvarpinu. Taka það og rekstur þess til endurskoðunar og breytinga.

Í grein sem Óli Björn Kárason skrifar á fréttavef sinn AMX, sem ber heitið Gjaldþrot blasir við Ríkisútvarpinu að óbreyttu, segir, með leyfi forseta:

„Staða Ríkisútvarpsins ohf. er alvarleg og ef fyrirtækið væri ekki opinbert hlutafélag væri lítið annað sem biði þess í náinni framtíð en gjaldþrot. Ríkisútvarpið tók til starfa sem opinbert hlutafélag í apríl á liðnu ári og á sextán mánuðum tapaði fyrirtækið liðlega eitt þúsund milljónum króna á verðlagi í nóvember. Ætla má að allt eigið fé sé uppurið og raunar bendir flest til þess að eiginfjárstaðan sé neikvæð. Ef ætlunin er að halda rekstrinum áfram er vandséð hvernig komist verði hjá því að ríkissjóður leggi fyrirtækinu til aukið fé eða eignir seldar.

Í byrjun apríl 2007 var eigið fé Ríkisútvarpsins 878,6 milljónir króna en þar af var hlutafé tæpar 840 milljónir. Reikningsár fyrirtækisins er frá september til ágúst og í lok ágúst var eigið fé komið niður í tæpa 31 milljón króna. Þróun verðlags og gengis íslensku krónunnar frá þeim tíma hefur étið upp allt eigið fé og gott betur.

Skuldir Ríkisútvarpsins í lok ágúst námu alls 5.604 milljónum króna og hækkuðu um nær 200 milljónir á reikningsárinu. Frá því að fyrirtækið varð opinbert hlutafélag hafa skuldir hækkað um 625 milljónir, eða um 39 milljónir króna að meðaltali í hverjum mánuði.

Tapið nam alls 833,7 milljónum króna fyrir skatta eða um 69 milljónum króna að meðaltali á mánuði.“

Þá segir áfram í umræddri grein, með leyfi forseta:

„Rekstrarvandi Ríkisútvarpsins virðist vera krónískur því tap hefur verið reglan. Frá árinu 2001 hefur heildartap fyrirtækisins numið alls 2.663 milljónum króna á verðlagi hvers árs. Á verðlagi í nóvember sl. nemur tapið hins vegar 3.435 milljónum króna og er síðasta rekstrarár langversta starfsár fyrirtækisins. Á verðlagi í nóvember nemur tapið 935 milljónum króna og er þá stuðst við meðaltal neysluverðsvísitölunnar á reikningsárinu. Frá árinu 2001 hefur Ríkisútvarpið fengið 24.600 milljónir króna í afnotagjöld og er þá miðað við verðlag í nóvember.“

Þetta er staðan sem blasir við varðandi þennan rekstur ríkisins á fjölmiðlum. Miðað við þær gríðarlegu fjárhæðir sem skattgreiðendur standa undir á ári hverju hlýtur það að kalla á spurningar um hvort við erum með frumvarpinu að fara rétta leið. Hvort ekki sé grundvallaratriði að gera sérstaka úttekt og rannsókn á fjölmiðlinum með tilliti til þess að rekstur hans og hlutafélagsins geti staðið undir sér og ekki sé um taprekstur að ræða sem skattgreiðendur eru látnir rétta af hverju sinni. Það er ólíðandi. Það verður að koma eðlilegum hlutum á framfæri.

Varðandi frumvarpið sjálft tek ég fram að 1. gr., þ.e. breytingu á 3. gr. laganna um Ríkisútvarp, er mjög góð viðbót sem skýrir með hvaða hætti og hvernig á að standa að málum og ég tel mjög gott að fá það fram sem þar stendur.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að sérstakur nefskattur verði áfram innheimtur svo sem kveður á um í 11. gr. laganna og nefskatturinn á að hækka úr því sem segir í lögunum úr 14.580 kr. á ári í 17.900. Miðað við hvernig til er stofnað og það að um er að ræða fyrirtæki í eigu ríkisins hefði ég talið eðlilegra að halda afnotagjöldum með þeim hætti sem gert er núna eða hreinlega fella þau niður og eingöngu sé um það að ræða að Ríkisútvarpinu væri fengi ákveðna fjárhæð á hverju ári af skattpeningum ríkisins. Mér finnst nefskattshugmyndin mjög ógeðfelld. Ég sætti mig ekki við að allir eigi að borga, hvernig sem á stendur, hvort sem þeir eiga útvarp eða sjónvarp eða ekki. Tekið er fyrir eðlilegt valfrelsi borgarans í þessu landi og það er óásættanlegt.

Við eigum jú að eiga rétt á vali. Við eigum að eiga rétt á því að velja fjölmiðil og hafna fjölmiðli. En með þessum hætti er öllum gert skylt að greiða.

Ég tel að eðlilegra væri, þar sem í lögum er vísað til álagningar opinberra gjalda, að þetta sé hluti af tekjuskatti einstaklinga og ríkisvaldið leggi þá stofnuninni til fé. En að ekki sé sérstakur nefskattur, því hann getur verið mjög óréttlátur í mörgum tilvikum.

Annað sem er gjörsamlega óskiljanlegt í frumvarpinu, miðað við það sem ég gerði grein fyrir fyrr í ræðu minni um hvernig fjárhagur Ríkisútvarpsins er, er það sem kemur fram í 4. gr. frumvarpsins um hlutfall auglýsinga í dagskrá. Það er með öllu óskiljanlegt að takmarka eigi svo sem þar greinir möguleika Ríkisútvarpsins á að afla sér tekna, á sama tíma og á að velta auknum byrðum yfir á skattgreiðendur. Ég hlýt að spyrja: Hvaða tilgangi getur það þjónað?

Hæstv. menntamálaráðherra upplýsti áðan að hlutur Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum útvarps væri 10% og sjónvarps 30%. Mér fundust þær tölur að vísu með nokkrum ólíkindum. En setjum sem svo að það sé rétt þá finnst mér það með ólíkindum að það eigi að fara þá leið sem er valin í frumvarpinu að miða við að auglýsingatíminn skuli vera innan við 200 sekúndur. Hver auglýsingatími skal vera innan við 200 sekúndur. Að vísu verð ég að viðurkenna að út frá eigingjörnum sjónarmiðum þætti mér það mjög henta því mér finnst fátt hvimleiðara en auglýsingar. En þær eru hluti af því fjölmiðlaumhverfi sem við búum við og ef við viljum hafa fjölmiðlun og afþreyingarefni og fræðsluefni verðum við að sætta okkur við auglýsingarnar því þær gera rekstur fjölmiðla mögulegan. En mér finnst með ólíkindum að setja þessa takmörkun.

Enn fremur þarf ég að fá skýrari rök en komu fram í ræðu hæstv. menntamálaráðherra um að taka eigi alfarið fyrir kostun. Vegna þess að kostun getur verið mjög mikilvægt úrræði þegar um er að ræða ákveðna sérstaka hluti sem sýnt yrði frá, eins og alþjóðamót í íþróttum og ýmislegt fleira sem þá er tekið fyrir möguleikana á að geta gert grein fyrir.

Mér finnast báðar breytingarnar vera fremur ómarkvissar. Frekar ætti að velta fyrir sér hvort Ríkisútvarpið yrði að sætta sig við að hlutfall þess á auglýsingamarkaðnum færi ekki yfir ákveðin mörk. Fyrir ári síðan hefði ég treyst mér til þess að vera talsmaður þess að um Ríkisútvarpið yrði hafður annar háttur á, mun meiri takmarkanir á auglýsingum í sjónvarpi heldur en hér er jafnvel gert ráð fyrir.

Ég átta mig á því að ég er einn fárra sem mæla fyrir því að ríkið hætti fjölmiðlarekstri þannig að ég verð að sætta sig við ofurvald meiri hlutans þótt hann hafi rangt fyrir sér. En eins og nú háttar til í íslensku fjölmiðlaumhverfi hefði ég talið að til þess að efla almenna fjölmiðlun í landinu yrðu gerðar verulegar breytingar á.

Eins og nú horfir í augnablikinu og með tilliti til ofurvalds meiri hlutans tel ég að ekki eigi að setja frekari höft í augnablikinu á auglýsingar sjónvarpsins. Mér finnst mjög ótímabært að gera það og ætla að setja kostnaðinn af því yfir á skattgreiðendur, eins og greinilegt er varðandi þetta frumvarp.

Ég er á móti því að hækka nefskattinn. Ég er í sjálfu sér algerlega á móti nefskattinum sem slíkum og finnst mikilvægt að reyna þá að standa við það sem var ákveðið um tekjur Ríkisútvarpsins í 11. gr. laga nr. 6/2007 en víkja ekki frá því að öðru leyti en því. Virðulegi forseti, ég tel nauðsynlegt að við föllum frá þessari glórulausu nefskattshugmynd og látum þetta alfarið vera mál sem heyrir undir fjárveitingavaldið hverju sinni sem og þær tekjur sem þarf að afla til að standa undir þeirri fjölmiðlun sem ríkið og meiri hlutinn vilja reka og það sé ekki greitt af fjárlögum og tekjurnar séu allar með sama hætti og aðrar tekjur úr ríkissjóði.