Ríkisútvarpið ohf.

Fimmtudaginn 11. desember 2008, kl. 14:05:04 (2098)


136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[14:05]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka um margt athyglisverða ræðu hjá hv. þingmanni sem kom inn á marga punkta, marga sem hægt er að taka undir en aðra þar sem virðist gæta ákveðins misskilnings.

Útvarpsréttarnefnd hefur nú verið breytt og er nokkuð síðan að það gerðist. Formaður hennar er nú Bernharð Bogason sem mun hafa eftirlit með fjölmiðlunum og þar með Ríkisútvarpinu.

Varðandi það frumvarp sem er hér til umræðu er rétt að árétta að við erum ekki að tala um almenna fjölmiðlalöggjöf heldur sérlöggjöf um Ríkisútvarpið þar sem í fyrsta sinn er rætt um ákveðnar þrengingar eða aðhald á Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði. Hv. þingmaður hefur sett fram sín sjónarmið með markvissum hætti sem eðlilegt er að tekið verði tillit til og farið yfir hjá hv. menntamálanefnd.

Það hefði nú betur verið þannig að við hefðum samþykkt fjölmiðlalögin hin síðari fyrst að hæstv. forseti okkar samþykkti ekki fyrri lögin. Ég minni hv. alþingismann Kristin H. Gunnarsson á að eftir að uppákoman varð 2004 skipaði ég þverpólitíska nefnd sem skilaði þverpólitísku og heildstæðu áliti varðandi eignarhald á fjölmiðlum. Hvað gerðist? Þingið stoppaði það, það stoppaði í nefnd. Það vantaði ekki sjónarmið eða skoðanir af minni hálfu og míns flokks og samstarfsflokks á þeim tíma til að reyna að koma þessu í gegn en stjórnarandstaðan á þeim tíma stoppaði þetta frumvarp sem, merkilegt nokk, var engu að síður þverpólitísk samstaða um. Við hefðum betur farið með það frumvarp í gegn.

Ég tek undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar. Það þarf að fara yfir eignarhald á fjölmiðlum (Forseti hringir.) hvort sem það er í nútíð eða framtíð. Og það verður líka hlutverk þess hóps sem er skipaður af öllum flokkum að fara einmitt yfir þann þátt málsins og gera það áfram.