Ríkisútvarpið ohf.

Fimmtudaginn 11. desember 2008, kl. 14:12:46 (2102)


136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[14:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér breytingar á lögum um RÚV ohf. Ég hef reyndar aldrei skilið hvernig einkaaðilar geti verið í samkeppni við RÚV. Miðað við allan þann gífurlega styrk sem það fyrirtæki fær ætti sú samkeppni að vera algerlega vonlaus nema eitthvað mikið sé að í rekstrinum. Samkeppnin er nokkur þannig að maður getur dregið sínar ályktanir af því.

Verið er að hækka sérskatt vegna þessa fyrirtækis og ég ræði það á eftir. Ég fer ekki ofan af því og skammast mín ekkert fyrir það að ég flutti hér frumvarp um að selja RÚV, það var mál nr. 54 á 132. þingi, vegna þess að ég treysti samkeppniseftirlitinu í landinu sem margir virðast ekki gera nú. Ég tel að Ríkisútvarpið sé virkilega góð stofnun með hæft og gott starfsfólk sem örugglega blómstrar þegar búið verður að breyta því í einkafyrirtæki. Ég hef mikla trú á starfsmönnum RÚV þótt fyrirtækið búi við það helsi í dag að vera í algerri eigu ríkisins.

Áðan var nokkur umræða um sjálfstæði fréttamanna og það var talað um sjálfstæði fréttamanna hjá einkastöðvum. Hvers vegna er ekki umræða um sjálfstæði fréttamanna hjá ríkisstöðinni? Það vill svo til að Ríkisútvarpið er í eigu ríkisins, ríkinu er stjórnað af stjórnmálamönnum og þeir hafa yfirleitt mjög sterkar skoðanir á hlutunum og vilja gjarnan koma þeim fram. Ríkisútvarpið er þannig mjög háð eigendum sínum. Ef nokkur stöð er háð eigendum sínum þá er það Ríkisútvarpið því þar er meira að segja bara einn eigandi og hann er með óskorað vald — það er ríkisvaldið. Í ljósi þeirrar gerjunar sem er í þjóðfélaginu þessa dagana, þegar gagnrýni er beint á allt og alla, hljóta menn að efast um það hvort Ríkisútvarpið sé óháð ríkisvaldinu.

Svo getur maður spurt sig, hvers vegna í ósköpunum rekur ríkið fjölmiðil? Af hverju ekki bókaútgáfu eða hvað sem er, skipaútgerð eins og það gerði reyndar einu sinni.

Þetta frumvarp er stútfullt af forsjárhyggju. Það er talað um að meta eigi kostnað við rekstur almannaþjónustu. Ég ætla bara að grípa niður í nokkur atriði.

Hver auglýsingatími skal vera innan við 200 sekúndur. Ég segi nú bara, af hverju ekki 201 eða 210? Hvaðan koma þessar 200 sekúndur? Það er talað um kjörtíma og verið sem sagt hérna í lögum að vasast í viðskiptum.

Í þessu frumvarpi er dálítið mikil breyting sem ég gleðst mjög yfir. Hún er að nú á Ríkisútvarpið að fara á fjárlög og það á að gera samning við það. Þá er stutt í að þessi samningur verði boðinn út þar sem starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. geti eins og aðrir boðið í þá þjónustu í almannaþágu sem hér er rætt um og nákvæmlega lýst.

Síðan er í frumvarpinu merkilegt ákvæði um að sektir geti numið allt að 10 millj. Bíðum nú við, herra forseti, sektir til hvers og frá hverjum? Hver fær sektirnar? Það er eigandinn. Hvaða máli skiptir þetta? Ég sé engan tilgang í þessu. Miklu betra væri að segja að ef brotið sé gegn lögunum skuli forstöðumaðurinn hætta fyrirvaralaust.

Ég ætla að ræða um skattamálin. Skatturinn er hugsaður sem þjónustugjald eða þannig að hver einstaklingur borgi. Reyndar ekki þeir sem eru undir ákveðnum tekjumörkum og heldur ekki þeir sem eru sjötugir og eldri. Þeir hlusta að sjálfsögðu á útvarp líka og alveg furðulegt að moldríkur áttræður karl með miklar eignir, góðar lífeyristekjur og tekjur af ýmsu öðru skuli sleppa við að borga gjaldið. Ég skil það nú bara ekki.

Fyrirtæki eiga að borga líka, þ.e. smátrillukarl sem er með hlutafélag um trilluna sína — trillan skal fá að borga líka. Eigandinn er búinn að borga fyrir sig því hann borgar sjálfur sem skattþegn. Hann er búinn að borga fyrir hlustun á útvarpinu en svo á trillan að borga líka. Ég veit ekki til þess að trillur hlusti á útvarp eða horfi á sjónvarp. Málið vandast kannski þegar kemur að notkun útvarps í fjósum en ég ætla ekki að fara nánar út í það hvort eigi að skattleggja kusurnar.

Nefskattur er afskaplega ósanngjarn vegna þess að ef menn hafa einni krónu meira en nemur þessum mörkum borga menn þennan nærri því 20.000 kall plús 6.000 kall eða 7.000 kall í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þá eru menn farnir að borga nærri 30.000 kall fyrir eina krónu.

Það hefði verið miklu skynsamlegra að setja þetta inn í persónuafsláttinn og lækka hann sem nemur þessu. Það kemur nákvæmlega eins út nema það væri jafnara varðandi þessa einu krónu og miklu ódýrari framkvæmd. Ég lagði þetta til á sínum tíma, herra forseti, en að sjálfsögðu var það ekki rætt frekar. Við erum komin með sérskattalög fyrir þetta fyrirbæri sem svo auðveldlega mætti setja inn í persónuafsláttinn í venjulegum skattalögum. Síðan mætti sérgreina tekjurnar af því ef menn vilja endilega sjá það í ríkisbókhaldinu.