Fjárlög 2009

Mánudaginn 15. desember 2008, kl. 11:06:42 (2241)


136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009 frá meiri hluta fjárlaganefndar en meiri hlutann skipa ásamt mér hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformaður nefndarinnar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Illugi Gunnarsson, Ármann Kr. Ólafsson, Ásta Möller og Herdís Þórðardóttir, sem sat lokafundinn í fjarveru Bjarkar Guðjónsdóttur. Þessir hv. þingmenn eru meðflutningsmenn mínir á áliti þessu og framlögðum breytingartillögum.

Miklar breytingar hafa orðið á íslensku efnahagsumhverfi frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram á Alþingi þann 1. október sl. Hin snöggu umskipti hafa eðlilega sett mark sitt á störf fjárlaganefndar og ríkisstjórnar í fjárlagaferlinu. Nefndin hóf störf strax í byrjun september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum.

Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið á fimmta tug funda og átt viðtöl við fjölmarga aðila. Að þessu sinni skipti fjárlaganefndin sér í þrjá undirnefndir þar sem hver og ein tók fyrir afmörkuð málefnasvið. Sú vinna gekk vel að mati nefndarmanna. Einnig voru á annað hundrað viðtöl við hagsmunaaðila um umsóknir þeirra um fjárveitingar til tiltekinna verkefna.

Fulltrúar frá fjármálaráðuneyti komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfum, dagsettum 9. október og 20. nóvember sl., óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um þá þætti frumvarpsins sem varða málefnasvið hverrar um sig. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum. Álit nefnda um úthlutun úr safnliðum verða birt í þingskjölum við 3. umr. samkvæmt ákvörðun fjárlaganefndar.

Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust. Breytingartillögur sem varða afgreiðslu þeirra verða til umfjöllunar við 3. umr. samkvæmt ákvörðun fjárlaganefndar. Unnið er að frekari áætlunum um vissa útgjaldaliði frumvarpsins sem þurfa frekari skoðunar við, m.a. vaxtagjöld af auknum skuldum sem ríkissjóður þarf að taka á sig í kjölfar áfalla í fjármálakerfi landsins. Einnig er unnið að endurmati á verðlags- og gengisforsendum frumvarpsins. 5. og 6. gr. bíða enn fremur 3. umr. fjárlaga.

Þær breytingartillögur sem nú eru lagðar fram við 2. umr. eru tillögur þær sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og voru teknar til umfjöllunar í fjárlaganefnd í annarri viku desember. Þar að auki er í breytingartillögunum sá hluti tillagna forsætisnefndar um fjárheimildir Alþingis 2009 sem lýtur að rekstri þingsins og stofnana þess.

Hér verður fyrst gerð stuttlega grein fyrir meginbreytingum sem varða tekjuhlið frumvarpsins. Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 395,8 milljarður kr. sem er 54,6 milljarða kr. lækkun frá frumvarpinu. Ríkisstjórnin leggur m.a. til að tekjuskattur einstaklinga verði hækkaður um 1 prósentustig, úr 22,75% í 23,75%. Með því munu tekjur ríkissjóðs hækka um 7 milljarða króna frá því sem áður var áformað. Tekjujöfnuður verður -93,1 milljarður kr. þannig að hallinn eykst um 36,2 milljarða kr. Efnahags- og skattanefnd mun síðan einnig gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umr. fjáraukalaga og fjárlaga.

Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. nema samtals 18,3 milljörðum kr. til lækkunar á sundurliðun 2 í frumvarpinu. Mun ég ekki gera ítarlega grein fyrir gjaldatilfærslum niður á einstaka liði. Þó ber að nefna að í tillögum ríkisstjórnarinnar sem lagðar voru fyrir fjárlaganefnd Alþingis við 2. umræðu fjárlaga er gert ráð fyrir að í sparnaðartillögum í rekstrarútgjöldum og tekjutilfærslum nemi u.þ.b. 19 milljörðum króna eða um 4,5 % af heildarútgjöldum ríkissjóðs til þessara málaflokka. Er bæði um að ræða hagræðingu í núverandi rekstri og frestun verkefna sem ekki eru komin til framkvæmda. Með þessum og fleiri aðgerðum mun halli ríkissjóðs verða 165–170 milljarðar króna en hefði að óbreyttu geta orðið u.þ.b. 215 milljarðar.

Í áætlunum ríkisstjórnarinnar er gengið út frá því grundvallarviðmiði að sparnaður komi sem minnst niður á velferðarkerfinu, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og löggæslu en þess í stað verði meiri áhersla lögð á hagræðingu í rekstri ráðuneyta og hefðbundinna stjórnsýslustofnana. Staðinn er vörður um kjarabætur til millitekju- og láglaunahópa.

Hlutfallslega verður mesti samdráttur rekstrargjalda í utanríkisþjónustunni og hjá æðstu stjórn ríkisins en almennt er samdráttur í rekstri ráðuneyta á bilinu 5–7%. Gert er ráð fyrir að gjöld og samningar sem taka breytingum á milli ára samkvæmt verðlagi hækki í samræmi við þær áætlanir sem settar voru fram í fjárlagafrumvarpinu í byrjun október þar sem verðhækkanir ársins 2008 voru áætlaðar 11,5% en hækkun ársins 2009 var áætluð 5,7%. Er þetta nokkuð lægra en mælingar og spár gera ráð fyrir nú.

Engu að síður mun lágmarksframfærslutrygging almannatrygginga hækka til jafns við hækkun vísitölu neysluverðs á árinu 2008 og spár ársins 2009 sem leiðir til tæplega 20% hækkunar um næstu áramót fyrir þá sem lægstar hafa bæturnar og 9,6% hækkun fyrir aðra bótaþega. Kjör lægst settu lífeyrisþeganna hafa aldrei verið betri samanborið við lægstu laun í landinu.

Af einstökum liðum má nefna að fallið verður frá aukningu útgjalda til þróunaraðstoðar, mótframlagi í endurhæfingarsjóð verður frestað, framlög til sókna verða lækkuð, fallið verður frá framlögum í rannsókna- og tækjasjóði og ýmsir styrkjaliðir verða lækkaðir.

Talsverður samdráttur verður í nýframkvæmdum á árinu 2009 frá því sem áður var áformað. Samtals mun lækkun framkvæmda nema um 11 milljörðum króna eða 21% af áætluðum kostnaði við nýframkvæmdir ársins. Þrátt fyrir þessar breytingar munu framkvæmdir næsta árs nema ríflega 41 milljarði króna sem er svipuð upphæð og framkvæmt var fyrir á þessu ári. Það þýðir að árið 2009 verður samt sem áður eitt mesta framkvæmdaár sögunnar með tilliti til fjárveitinga ríkisins.

Helmingur af sparnaði í nýframkvæmdum verður í vegagerð en af öðrum einstökum liðum má nefna að frestun verður á framkvæmdum vegna nýrrar flugvélar og varðskips Landhelgisgæslunnar. Dregið verður úr fjölgun leiguíbúða og húsbyggingu á vegum Stofnunar Árna Magnússonar verður slegið á frest.

Að lokum er gerð grein fyrir breytingu á B- og C-hluta stofnana í þingskjölum 339 og 340. Mun ég ekki víkja að þeim breytingum hér í ræðu minni né öðrum sem ríkisstjórnin lagði fram en varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, mun flytja hér ræðu síðar í dag þar sem hann mun fjalla um nokkrar breytingar og fjárlagagerðina.

Breytt verkaskipting milli heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis, m.a. um öldrunarmál í upphafi ársins, hefur í för með sér flutning á milli liða í fjárlögum. Skiptingu og útfærslu fjárheimilda til rekstrar öldrunarþjónustu milli ráðuneytanna er ekki lokið og nú er fyrirhugað að tillögur um það efni komi fram við 3. umræðu frumvarpsins. Það kann að hafa í för með sér flutning á milli fjárlagaliða til leiðréttingar þar sem um er að ræða tugi milljarða. Þá er þess vegna afar mikilvægt milli 2. og 3. umr. að endurrýna þær tillögur sem hér eru sýndar og mun ég fara þess á leit fyrir hönd fjárlaganefndar að félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti hafi með sér samráð og samvinnu um endurrýni á ráðstöfun fjár, fjárheimildum, á nokkrum tilgreindum fjárlagaliðum sem snerta verkefnatilflutninginn eins og greint var frá við 1. umr. um fjárlagafrumvarpið.

Stór hluti vinnu fjárlaganefndar undanfarnar vikur hefur verið að fjalla um atriði er tengjast safnliðum frumvarpsins svo og verkefnum tengd húsafriðun, bátafriðun svo og ýmsum fornleifaverkefnum. Í ljósi þess að umsóknum og beiðnum um fundi hefur alltaf fjölgað á milli ára vil ég ítreka þá skoðun mína að skoða verði í heild vinnulag Alþingis sem í nokkru gæti leitt af sér styrkingu sjóða en ekki síður að umræddir fundir fari fram mun fyrr á árinu en ella.

Um þessi atriði þarf að nást sátt innan Alþingis en uppi eru þverpólitískar skoðanir á núverandi vinnulagi. Tel ég að brúa megi bil beggja hópa í þessum efnum eins og svo oft áður þegar kemur að samvinnu og sáttum. Hér við 2. umr. verður ekki fjallað um úthlutunartillögurnar en það verður gert við 3. umr.

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og gera að umtalsefni nokkur atriði sem lúta að gerð fjárlaga og vinnu Alþingis í kjölfar framlagningar frumvarpsins. Það hefur alltaf verið afar mikilvægt í mínum huga að vel takist til um gerð rammafjárlaga á komandi árum, þau eiga að vera það leiðarljós sem stofnanir geta stuðst við. Með frumvarpinu var í fyrsta sinn lagður fram rammi um umfang og forgangsröðun ríkisútgjalda til næstu fjögurra ára í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Sett er fram meginstefna í hagstjórn og viðmið um tekjuöflun og raunvöxt útgjalda ríkissjóðs.

Því miður hafa þær forsendur sem frumvarpið byggði á brostið að nokkru og nú ríkir veruleg óvissa um þróun ýmissa hagstærða. Fjárlagarammi til nokkurra ára styrkir hins vegar vinnu ráðuneytanna en ekki síður hefur fjárlaganefndin aðra aðkomu og skýrari að yfirferð frumvarpsins og vinnu við breytingartillögur. Það er ekki heppilegt vinnulag að verða á fjölmörgum löngum fundum í aðdraganda þessarar vinnu að kalla eftir minnisblöðum og skýringum sem þyrftu að berast á hraða ljóssins. Eins er ekki heppilegt að stór hluti af tíma fjárlaganefndar hitti á þessum tíma ársins aðila vegna einstakra verkefna vítt og breitt um landið. Það má gera á öðrum tíma eins og ég hef áður vikið að.

Ég hef verið talsmaður þess að styrkja yfirferð þingsins á lokafjárlögum, taka til umfjöllunar allar stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar en ekki hvað síst að styrkja eftirlitshlutverk þingsins sem tengist framkvæmd fjárlaga. Okkur hefur orðið nokkuð ágengt í þessum efnum að mínu mati undanfarna mánuði. Samskipti þingsins og undirstofnana þess eru nú með betri hætti en áður. Upplýsingar koma fyrr en mikilvægast er að fjárlaganefndarsvið hefur nú beinan aðgang að upplýsingakerfum ríkisins til að yfirfara, stemma og rýna þær fjárveitingar sem til staðar eru.

Á undanförnum árum hefur fjármunum verið ráðstafað umfram heimildir á allt að fjórðungi fjárlagaliða. Agi og festa skipta miklu þegar kemur að fjármálastjórn og ráðstöfun fjármuna. Vissulega geta verið eðlilegar skýringar á því af hverju ráðstöfun er ekki í samræmi við heimildir en í samanburði við þær þjóðir sem við berum okkur gjarnan saman við þekkist það ekki að ráðstöfun fari fram án heimildarákvæða. Það er því hlutverk okkar allra sem komum að fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaga að tryggja að við höldum okkur innan þess ramma og við það skipulag sem okkur er skapað.

Ákvæði reglugerðar um framkvæmd fjárlaga eru skýr og gefa fyrirmæli um að virða beri fjárlögin til fjárheimilda en ekki að líta á þau sem áætlun sem aðeins beri að hafa til hliðsjónar. Það er skýrt að Alþingi fer með fjárveitingavaldið og það er á ábyrgð Alþingis, ráðuneyta og forstöðumanna stofnana að sjá til þess að fjárlög séu virt.

Strax í upphafi þegar núverandi fjárlaganefnd kom saman fyrir 18 mánuðum síðan voru gefin skýr fyrirheit um að fjárlaganefndin mundi á komandi mánuðum og árum sinna því hlutverki sínu er lýtur að eftirliti með framkvæmd fjárlaga. Það tengist þeirri ábyrgð sem fjárlaganefndinni er falin fyrir hönd Alþingis en hún fer með fjárveitingavaldið. Nefndin breytti verulega um vinnulag og hefur fjallað ítrekað um framkvæmd fjárlaga og er það er vel. Ber einnig að nefna að mikilvægt er að reglur um flutning fjárheimilda á milli verkefna og á milli ára verði gerðar skýrari en þær virðast nú vera.

Þá ber að leggja áherslu á að sameiginlegur skilningur um grundvallaratriði er varðar framkvæmd fjárlaga þarf að vera til staðar hverju sinni hjá þeim aðilum sem vinna að framkvæmdinni og/eða eftirlitinu. Á það virðist skorta að nokkru leyti.

Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum gert athugasemdir í skýrslum sínum um framkvæmd fjárlaga við að stofnanir hafi farið fram úr fjárheimildum án þess að gripið sé til aðgerða eins og reglur segja til um. Ítreka ber því mikilvægi þess að endurrýna og gera úrbætur á verklagi sem miða að því að framkvæmd fjárlaga sé með betri hætti en nú er. Niðurstaða fjölmargra skýrslna, greinargerða og yfirlita frá fjármálaráðuneytinu til fjárlaganefndar sýna að þess er þörf.

Fjárlaganefndin hefur tekið þátt í þessu átaki með fjármálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun og er það von mín að sú niðurstaða leiði okkur að markvissari ríkisrekstri og meiri aga og festu í kerfinu en það er það sem við höfum leitað eftir og viljum finna stað.

Forseti Alþingis skipaði nýlega nefnd sem skilar á næsta ári skýrslu um þingeftirlit. Vonandi mun sú skýrsla leiða til þess að hlutverkin verði skýrari og framkvæmdinni fundinn farvegur. Í ljósi breytinga á römmum stofnana verður erfiðara fyrir forstöðumenn að stýra fjármálunum en ella hefði orðið. Stjórnunarleg og fjárhagsleg ábyrgð þurfa að fara saman. Forstöðumenn bera ábyrgð á því að viðkomandi stofnun haldi sig innan ramma fjárlaga því að samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, bera forstöðumenn og stjórnir stofnana ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir.

Þá má minna á að stjórn stofnunar hefur þær skyldur sem forstöðumenn hefðu ella þar sem skipuð er stjórn til þess að annast rekstur. Þetta á t.d. við E-hluta stofnanir ríkisins. Fjárlaganefnd vinnur nú sameiginlega að gerð frumvarps um breytingar á lögum um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, þar sem gert er ráð fyrir að við 1. mgr. 10. gr. bætist nýr málsliður sem heimili Ríkisendurskoðun að veita fjárlaganefnd Alþingis aðgang að þeim gögnum sem hún aflar samkvæmt 1. mgr. áðurnefndra laga. Nefndarmenn verða þá bundnir þagnarskyldu um vitneskjuna sem þeir fá í nefndinni ef ríkisendurskoðandi kveður svo á um. Það mun styrkja mjög aðkomu og eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart E-hluta stofnunum.

Fjárlaganefnd mun hér eftir sem hingað til fylgjast með framkvæmd fjárlaga innan ársins en beinir þeim tilmælum til stjórnvalda að halda sig innan heimilda fjárlaga sem mun auðvelda ríkisreksturinn, áætlunargerðina og um leið hefur það jákvæð þjóðhagsleg áhrif. Ég held einnig að það sé nauðsynlegt í ljósi stöðunnar að kalla á þá aðila sem fara með þessi mál í byrjun næsta árs, ræða við þá, gera ákveðnar kröfur um verklag, upplýsingar o.s.frv.

Fram kom við 1. umr. fjárlaga að nauðsynlegt er að fjárlaganefnd fari ítarlega ofan í málefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra. Eins og ég sagði áðan stendur í nefndarálitinu að nefndin hélt á fimmta tug funda og fékk hundruð gesta á fundi sína m.a. til að fá skýra mynd á rekstri einstakra stofnana og ráðuneyta. Af því tilefni vil ég árétta að gott samstarf var í nefndinni. Ég vil sérstaklega þakka nefndarfólki í fjárlaganefnd fyrir gott samstarf í þeirri vinnu. Að sjálfsögðu getur stjórn og stjórnarandstöðu greint á í ýmsum málum, það geta verið uppi ólíkar skoðanir.

Ég ítreka hins vegar þann vilja minn sem formaður að ná fram sem bestum upplýsingum og rökræðum í starfi nefndarinnar og þeir sem eldri og reyndari eru en ég í störfum fjárlaganefndar hafa vafalaust tekið eftir þeirri stefnubreytingu sem innleidd hefur verið í vinnubrögðum nefndarinnar. Þar hefur verið tekið upp nýtt vinnulag sem á eftir að þróast enn frekar. Um leið og ég þakka nefndarmönnum meiri hlutans og minni hlutans þann stuðning sem myndast hefur um hið nýja vinnulag vil ég samt sem áður sérstaklega þakka hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, þeim Jóni Bjarnasyni, Guðjóni A. Kristjánssyni og Magnúsi Stefánssyni, fyrrverandi formanni fjárlaganefndar, en ekki síður fyrrverandi fjárlaganefndarmanni Bjarna Harðarsyni. Nærvera þeirra umliðnar vikur og mánuði hefur verið okkur hinum ómetanleg í því aðhaldi sem þeir sýna okkur í stjórnarmeirihlutanum.

Þá ber að þakka starfsfólki nefndasviðs Alþingis sérstaklega, þá einkum fjárlaganefndarskrifstofu sem hefur lagt á sig ómælda vinnu undir gífurlegu vinnuálagi. Það starfsfólk á heiður skilinn fyrir skipuleg og fagleg vinnubrögð en nefndarmenn meiri og minni hluta hafa notið aðstoðar þeirra í hvívetna. Þá hefur nefndin notið aðstoðar Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytis og einnig hafa einstök ráðuneyti veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.

Hæstv. forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég lýk máli mínu og ítreka það sem áður hefur komið fram á hinu háa Alþingi: Við höfum öll sett okkur afar metnaðarfull markmið á mörgum sviðum sem öll eiga það sameiginlegt að stuðla að aukinni velsæld íslensku þjóðarinnar. Við núverandi hagstjórnar- og efnahagsaðstæður skiptir miklu að geta horft fram á veginn til að gera sér enn betur grein fyrir því hvert stefnir í ríkisrekstrinum og um leið hjá íslenskri þjóð.