Fjárlög 2009

Mánudaginn 15. desember 2008, kl. 12:47:40 (2259)


136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:47]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræðan sem talsmaður Vinstri grænna í fjárlaganefnd flutti hér áðan kom mér í sjálfu sér ekki mikið á óvart. Þetta voru sömu frasarnir og áður hafa kveðið og komið fram í þessum ræðustól. Mikið hefur borið á því í því máli hv. þingmanns að gjörð og gerningum í þessu frumvarpi sé stýrt af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það þarf engan snilling og alls ekki einhverja útlendinga til að segja mönnum að það tekjufall sem orðið hefur hjá íslenska ríkinu og sá útgjaldaauki sem fyrir liggur kallar á aðgerðir hér heima fyrir.

Ég vil ítreka þær spurningar sem hv. þm. Gunnar Svavarsson beindi til ræðumanns áðan, hvar hann sjái dregið úr rekstrinum, því utanríkisþjónustan tekur á sig hlutfallslega langmestan niðurskurð í þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Það er ástæðulaust að benda sýknt og heilagt á það sem (Forseti hringir.) betur má fara og ég skora á hv. þingmann að koma með gagngerar tillögur.