Fjárlög 2009

Mánudaginn 15. desember 2008, kl. 16:40:44 (2291)


136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðu hans. Hann fjallaði um þær breytingartillögur sem lagðar eru fram við fjárlagafrumvarpið auk þess að fjalla ítarlega um skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og hv. þingmaður vildi nefna það.

Mjög margt kom fram í ræðu hans sem rétt er að fylgja eftir. Ég sagði það í frábærri ræðu minni í morgun að með þessum aðgerðum og fleirum sem kynntar eru hér mun halli ríkissjóðs verða 165–170 milljarðar kr. en hefði að óbreyttu getað orðið u.þ.b. 215 milljarðar. Á sama hátt vil ég ítreka það eins og ég hef jafnan gert í andsvörum í dag að umræddar breytingartillögur sem bárust fjárlaganefnd frá ríkisstjórninni í síðustu viku og eru bornar hér fram, eru á ábyrgð stjórnarmeirihlutans og við víkjum okkur ekkert undan þeirri ábyrgð.

Það hefur komið fram í umræðunni að lagt er upp með það að ekki þurfi að segja upp fólki í stórum stíl og nú má vel vera að einhvers staðar verði að hagræða. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann, af því að ég hef spurt þingmenn stjórnarandstöðunnar að því í dag: Ef við horfum fram á að það þurfi að vera hagræðing og aðhald í ríkisrekstrinum, hvar vill hann þá bera niður? Menn hafa vikið að stuðningi við NATO, Varnarmálastofnun, Sjúkratryggingastofnun og Fiskistofu og því óska ég eftir að hv. þingmaður bæti (Forseti hringir.) við þennan lista sem ég hef safnað saman frá stjórnarandstöðunni.