Fjárlög 2009

Mánudaginn 15. desember 2008, kl. 22:48:18 (2333)


136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[22:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stóru, þungu vaxtabyrðarnar á komandi árum eru ekki vegna hallans á ríkissjóði núna. Þær eru vegna lántöku sem við göngumst undir vegna skuldbindinga okkar erlendis, sem ríkisstjórnin er að skrifa undir samkvæmt skipunum (Gripið fram í.) Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er það sem við bendum á og hæstv. iðnaðarráðherra virðist ekki geta skilið.

Hann virðist geta skilið það eitt að skera eigi niður í velferðarþjónustunni. Hann réttlætir frumvarpið sem hér liggur fyrir. Tóku menn eftir því hvað einn helsti oddviti Samfylkingarinnar sagði? Hann sagði: Hlustum á hæstv. forsætisráðherra, (Gripið fram í.) Geir H. Haarde, formann Sjálfstæðisflokksins. Ég spyr: Er ekki tími til kominn að fara að hlusta á samvisku jafnaðarmanna? (Gripið fram í.) Er ekki tími kominn til þess?

Ég segi: Ef menn gerðu það gripu menn til annarra ráðstafana en að skerða bætur almannatrygginga og rukka sjúkt fólk sem leggst inn á sjúkrahús landsins, inn á Landspítala. Þá legðu menn ekki á 1% jafnan flatan skatt, menn settu á hátekjuskatt. Menn reyndu að jafna kjörin í landinu, létta byrðum af þeim sem minnst hafa (Gripið fram í.) og hækka álögur hjá þeim sem meira hafa. Það er þetta sem ég segi og beini því til hæstv. iðnaðarráðherra: Hlustaðu á rödd samvisku þinnar. (Iðnrh.: Hvað er að 1% í skatti? Þú varst …)