Fjárlög 2009

Þriðjudaginn 16. desember 2008, kl. 14:41:49 (2374)


136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:41]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp til fjárlaga sem nú er til 2. umr. er í rauninni bara vinnuplagg. Það hefur ekki fengið eðlilega, lýðræðislega meðferð af hálfu þingsins. Ekki liggur fyrir við afgreiðslu gjaldahliðarinnar nein greiðsluáætlun fyrir ríkissjóð, engin rekstraráætlun fyrir ríkissjóð, engin stefnumótun til framtíðar, ekkert liggur fyrir um lántökur og lánakjör eða vexti og afborganir á næstu árum. Tekjuáætlun liggur ekki fyrir. Þetta er marklaust plagg. Við í fjárlaganefnd lögðum til að málið yrði ekki tekið til umræðu.

Þegar frumvarpið kemur til afgreiðslu munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs almennt sitja hjá en þó gera athugasemdir og koma með ábendingar við einstakar greinar þess til að árétta pólitíska afstöðu okkar til málsins. Þetta er frumvarp ójöfnuðar.