Fjárlög 2009

Þriðjudaginn 16. desember 2008, kl. 14:43:05 (2375)


136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:43]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Vinnubrögðin við fjárlögin 2009 eru algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þingmenn stjórnarflokkanna sem tóku við tillögum að nýjum fjárlögum 11. desember sl. og afgreiddu þau á einum sólarhring til síðari umræðu og þeirrar atkvæðagreiðslu sem hér fer fram.

Aðstæður í þjóðfélaginu gera það óhjákvæmilegt að gripið verði til mjög ákveðinna aðgerða til að ná niður fjárlagahallanum. Þingmenn Frjálslynda flokksins telja nauðsynlegt að unnið verði að heildstæðum, markvissum sparnaði í ríkisrekstri og lýsa sig reiðubúna til að vinna að slíku starfi.

Þær tillögur sem liggja fyrir eru hins vegar illa unnar og ómarkvissar og ná ekki því markmiði sem nauðsynlegt er til að dreifa byrðunum með sanngjörnum hætti á fólkið í landinu. Við áskiljum okkur allan rétt til að koma með tillögur og breytingar við 3. umr. Frumvarpið stenst ekki grundvallarforsendur og er án heildaráætlana. Þrátt fyrir óskir þar um hafa þau gögn ekki verið lögð fram. Við þessar aðstæður því munu þingmenn Frjálslynda flokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.