Fjárlög 2009

Þriðjudaginn 16. desember 2008, kl. 15:07:47 (2388)


136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:07]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Af öllum þeim niðurskurðartillögum sem hér liggja frammi eru þær sem lúta að heilbrigðismálum, heilbrigðisráðuneytinu hvað sársaukafyllstar og ég tel að þær séu einnig hvað vanhugsaðastar af þeim öllum. Afleiðingarnar eru ekki fyrirséðar en það er ljóst að tæplega 7 milljarða kr. niðurskurður frá fjárlagafrumvarpinu verður ekki bættur nema með skerðingu á þjónustu, fækkun starfsfólks og auknum sjúklingasköttum. Til viðbótar þessum boðaða niðurskurði fara margar stofnanir inn í rekstur næsta árs með skuldahala og veldur það enn frekari erfiðleikum í rekstri þessara mikilvægu stofnana.

Hæstv. forseti. Félagsþjónustan verður undir miklu álagi. Geðheilbrigðisþjónustan verður undir miklu álagi. Hana þyrfti að auka frekar en að draga úr. Lýðheilsa mun versna, henni mun hraka og álagið á aðrar stofnanir er ófyrirsjáanlegt. Þetta eru vanhugsaðar tillögur og munu koma í bakið á ykkur.