Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Miðvikudaginn 17. desember 2008, kl. 14:12:01 (2477)


136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

28. mál
[14:12]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Um er að ræða lögbundið árlegt endurmat á kostnaðarskiptingu við rekstur Fjármálaeftirlitsins, þróun álagningarstofna og mat á kostnaðardreifingu.

Ljóst er að töluverðar breytingar verða á Fjármálaeftirlitinu á næsta ári frá því sem áætlað var þegar skýrsla sú sem fylgir þessu frumvarpi um rekstur og starfsemi FME á næstu þremur árum var kynnt þann 3. júlí. Skýrslan er sem sagt fylgiskjal I með frumvarpinu. Þar er fjallað um gríðarlegan vöxt á fjármálamarkaði hér á landi og auk þess hvað starfsemin erlendis hafði aukist mikið, þ.e. starfsemi fjármálafyrirtækja erlendis. Bent var á að aukin alþjóðavæðing íslenskra fjármálafyrirtækja og aukið Evrópusamstarf eftirlitsaðila kallaði á stöðugt fleiri og flóknari verkefni af hálfu starfsmanna Fjármálaeftirlitsins. Áætlað var að íslensk fjármálafyrirtæki væru með rekstur í 28 löndum og með 73 starfsstöðvar víða um heim síðari hluta ársins 2008. Ég vil árétta að skýrslan var birt þremur mánuðum fyrir bankahrunið.

Frumvarpið hefur eðlilega tekið nokkrum breytingum í meðförum viðskiptanefndar, eins og formaður nefndarinnar hefur rakið. Miðað við þær breytingar og frumvarpið svo breytt er gert ráð fyrir að eftirlitsgjald ársins 2009 verði ríflega 825 millj. Þessi upphæð er lægri en áætlað var fyrir hrun bankanna en hún er 90% hærri en hún var árið 2006 og 37% hærri en árið 2007. Sjaldan hefur það skipt eins miklu máli og á undanförnum missirum að hafa öflugt fjármálaeftirlit. Það sama á við um nánustu framtíð nú í kjölfar bankahrunsins. Fjármálaeftirlitið hefur stóreflst eins og fram hefur komið á seinustu þremur árum. Fjöldi fastra starfsmanna eftirlitsins jókst t.d. um 60% á árunum 2005–2008 eða frá 35 starfsmönnum í 56.

Þegar þróun Fjármálaeftirlitsins hér á landi er skoðuð í ljósi bankahrunsins má segja að eftirlitið hafi ekki verið nærri fullnægjandi. Ekki skal dæmt um hverju er um að kenna en vert er að skoða þróun Fjármálaeftirlitsins og starf Fjármálaeftirlitsins í samhengi þeirra bankakreppa sem skullu á Norðurlöndunum á 10. áratugnum. Af þeim má draga ýmsan lærdóm. Aðdragandi bankakreppanna t.d. í Finnlandi og í Svíþjóð á 10. áratugnum svipar um margt ástandinu heima á undanförnum árum. Samfara auknu frelsi á fjármálamörkuðum jókst samkeppni milli bankanna — þetta er lýsing frá Svíþjóð og Noregi — og áhættusækni fylgdi í kjölfarið. Reynsla bankanna af starfsemi í frjálsu umhverfi var takmörkuð. Áhættusæknin var mikil og innra eftirlit bankanna veikt. Fjármálaeftirlitið var ekki eflt samhliða mikilli þenslu á fjármálamarkaði og reyndist ekki starfi sínu vaxið. Þetta var í Noregi en sérstaklega í Svíþjóð og Finnlandi og hljómar svolítið eins og það sem við höfum upplifað.

Mikil ásókn var í lán m.a. til kaupa á fasteignum sem hækkuðu stöðugt í verði, heimili og fyrirtæki voru afar skuldsett, innflutningur á vörum var óhóflegur og vöruskiptajöfnuður neikvæður. Gríðarleg útlánaaukning átti sér stað í bönkunum en þar sem innlendir vextir voru háir voru lán gjarnan tekin í erlendri mynt. Fjármagnsinnstreymi var mikið, bankarnir tóku erlend lán til tiltölulega skamms tíma en lánuðu svo aftur til lengri tíma.

Aðrir þættir en þeir sem að ofan greinir komu við sögu í mörgum löndum sem hafa lent í bankakreppum. Þessi aðdragandi hefur verið eins og lýst var áður en auk þess hafa komið til önnur atriði eins og lækkun útflutningstekna í einni svipan en þar má nefna áhrif af falli Sovétríkjanna í Finnlandi. Ofangreindar aðstæður eru klassískar. En ekki er þó hægt að segja að kreppur spretti af afmörkuðum ástæðum heldur flóknu samspili margra þeirra þátta sem hér voru taldir. Ég vil ítreka að fjármálaeftirlit í þeim löndum sem ég hef skoðað og fóru í gegnum fjármálakreppur á 10. áratugnum þótti ábótavant í flestum tilvikum. Fjármálaeftirlitið hefði þurft að verða öflugra en mig langar líka að taka fram að í kjölfar bankakreppunnar í Svíþjóð á 10. áratugnum tóku Svíar þá afstöðu að fela nýrri óháðri stofnun það hlutverk að stýra bankakerfinu út úr krísunni. Það þótti ekki eðlilegt að seðlabankinn eða fjármálaeftirlitið þar í landi hefði það hlutverk.

Þá vil ég líka nefna að hæstv. forsætisráðherra hefur upplýst að til skoðunar sé sá möguleiki að starfsemi Fjármálaeftirlitsins verði breytt og þá á ég við það mögulega fyrirkomulag að eftirlitið verði starfrækt og sameinað starfsemi Seðlabanka Íslands. Þannig er í raun afar margt óljóst um starfsemi Fjármálaeftirlitsins á komandi árum, sérstaklega á komandi ári. Kostnaður er áætlaður miðað við það umfang starfsins sem virðist fram undan og þannig byggir frumvarpið á mati Fjármálaeftirlitsins um það umfang.

Aftur að frumvarpinu, virðulegi forseti. Þar sem erlend starfsemi Fjármálaeftirlitsins verður ekkert í líkingu við það sem sem áætlað var um miðbik þessa árs má gera ráð fyrir að þessar 825,7 millj. kr. sem nú er áætlað að fari í eftirlitið ættu að nýtast vel í þeim verkefnum Fjármálaeftirlitsins sem fram undan eru á næsta ári og því styð ég frumvarpið, ég styð að það verði að lögum.