Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 19. desember 2008, kl. 16:18:48 (2695)


136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:18]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kjarni þess þegar við ræðum um verðtrygginguna er sá að ef við tökum þá ákvörðun að fara inn í hana með einhverjum hætti, alveg eins og við erum að gera hér með búvörusamningunum, mun einhver þurfa að greiða fyrir það. Þegar við skerðum vísitöluhækkanir mun það bitna á einhverjum með einhverjum hætti. Nákvæmlega sama mundi gerast varðandi fjárskuldbindingar almennings og fyrirtækja í landinu, einhver þarf að borga það að lokum. Það er vandinn og þess vegna hafa menn ekki treyst sér til þess að fara inn í þetta með þessum hætti.

Ég vek athygli á því að hæstv. félagsmálaráðherra setti niður starfshóp undir forustu sjálfs forseta Alþýðusambands Íslands til þess að fara yfir þessi mál. Niðurstaðan varð sú að það sé ekki hægt að skera algjörlega burtu þennan kúf heldur verður reynt að velta honum á undan sér í ljósi þess að hér sé um að ræða fasteignatryggð veðlán sem eru til lengri tíma. Þar er hægt að lækka greiðslubyrðina núna meðan verst stendur á hjá almenningi. Það mun hafa verulega jákvæð áhrif fyrir landbúnaðinn sem m.a. er skuldsettur með slíkum verðtryggðum lánum.

Varðandi búvörusamninginn og það sem hér hefur verið sagt er ekkert í frumvarpinu sem hér liggur fyrir og verður væntanlega samþykkt, sem sem kemur í veg fyrir að hægt sé að taka þessi mál upp við forustumenn bænda og ræða aðrar útfærslur. Ég hef margoft lýst því yfir, eins og hv. þingmaður veit, það kom fram í andsvari við hann við 1. umr. þessa máls, að ég er sannarlega reiðubúinn til þess. Ég ræddi þessi mál við forustumenn bænda í aðdraganda þessarar ákvörðunar. Eins og ég hef áður sagt finnst mér afstaða Bændasamtakanna að þeir væru ekki tilbúnir til þess að fara inn í samráðsferlið við þessar aðstæður, vera eðlileg. En ég fagna því að ég hef fundið fyrir mjög miklum vilja, áhuga og raunar hvatningu frá einstökum hv. þingmönnum um að við reynum að skoða þetta eftir áramótin og ef það er vilji forustumanna bænda að það sé gert mun ekki standa á mér í þeim efnum.