Fjárlög 2009

Mánudaginn 22. desember 2008, kl. 11:21:44 (2894)


136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:21]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Svavarssyni fyrir — má ég leyfa mér að segja — „kommentið“ á nefndarálit okkar. Við í minni hlutanum leggjum okkur fram um að vinna faglega að þessu og höfum lagt fram ýmsar ábendingar um það sem betur má fara og byggjum það á reynslu okkar allra þriggja sem erum í minni hlutanum og höfum lengi verið í fjárlaganefndinni. Ég tel að þetta sé innlegg í umræðu meðal okkar þingmanna um hvernig við getum bætt hlutina enn frekar, sem er mjög mikilvægt, ekki síst á þessum tímum.

Hvað varðar síðan fjáraukalög á næsta ári höfðum við ekki séð nefndarálit meiri hlutans þegar við sömdum tillögu okkar en fögnum því að meiri hlutinn er sammála okkur í því sem þar kemur fram þannig að vilji manna liggur fyrir til að fara í þessa vinnu sem ég held að sé nauðsynleg sem fyrst á næsta ári vegna þess að við búum við þær aðstæður að algjörlega nauðsynlegt og mikilvægt er að fara í gegnum það.