Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 151. máls.

Þskj. 171  —  151. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 8. og 24. gr. skulu skjöl, sem gefin eru út á tímabilinu frá gildistöku þessa ákvæðis til 1. janúar 2009 og fela í sér breytingar á skilmálum á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga, eða ný veðskuldabréf, sem gefin eru út til uppgreiðslu vanskila á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga, vera undanþegin greiðslu stimpilgjalds að því tilskildu að sömu aðilar séu að fasteignaveðskuldabréfinu og hinu nýja skjali.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í ljósi þess ástands sem nú ríkir á fjármálamörkuðum og tilmæla yfirvalda til banka og sparisjóða um að aðstoða fólk sem kynni að lenda í greiðsluerfiðleikum vegna hækkunar fasteignalána sem rekja má til lækkunar krónu og verðbólguáhrifa. Með frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði bætist við lögin þess efnis að tímabundið verði fellt niður stimpilgjald annars vegar vegna skilmálabreytinga á fasteignaveðskuldabréfum sem útgefin hafa verið af einstaklingum og hins vegar vegna nýrra veðskuldabréfa sem gefin eru út vegna vanskila á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga. Í framkvæmd er vanskilum ýmist bætt við höfuðstól hins upprunalega fasteignaveðskuldabréfs með skilmálabreytingu eða útgáfu sérstaks nýs veðskuldabréfs í tengslum við hið fyrra. Í báðum tilvikum er það skilyrði fyrir undanþágu stimpilgjalds samkvæmt frumvarpinu að sömu aðilar séu útgefendur að hinu nýja skjali (þ.e. skilmálabreytingu eða nýju veðskuldabréfi) og eru jafnframt kröfuhafi og skuldari samkvæmt viðkomandi fasteignaveðskuldabréfi sem hið nýja skjal nær til. Getur það jafnt náð til upphaflegra aðila að viðkomandi fasteignaveðskuldabréfi sem og aðila sem tekið hafa að fullu yfir skyldur upphaflegra aðila. Jafnframt er það skilyrði að hið nýja skjal sé gefið út vegna tiltekins áður útgefins fasteignaveðskuldabréfs og það vísi beint í það.
    Er lagt til að um tímabundna aðgerð verði að ræða með það að markmiði að auðvelda einstaklingum að skilmálabreyta áður þinglýstum fasteignaveðskuldabréfum sínum, eða gefa út ný veðskuldabréf vegna vanskila á fasteignaveðskuldabréfum, þar sem þörf kann að vera á því hjá fjölda einstaklinga við núverandi aðstæður.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 36/1978,
um stimpilgjald, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að skjöl sem gefin eru út á tímabilinu frá gildistöku laga þessara til 1. janúar 2009 og fela í sér breytingar á skilmálum á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga verði undanþegin greiðslu stimpilgjalds. Frumvarp þetta er lagt fram í ljósi þess ástands sem nú ríkir á fjármálamörkuðum og tilmæla yfirvalda til banka og sparisjóða þess efnis að aðstoða fólk vegna greiðsluerfiðleika. Tillaga frumvarpsins er ekki talin leiða til beinna útgjalda fyrir ríkissjóð, en ljóst er að tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi munu minnka eitthvað verði þetta frumvarp að lögum. Tekið skal þó fram að ekki var í forsendum tekjuáætlunar fjárlaga fyrir árið 2008 reiknað með sérstökum tekjum af stimpilgjaldi vegna skilmálabreytinga við aðstæður eins og nú hafa skapast.