Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 116. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 206  —  116. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um sérsveit ríkislögreglustjóra.

     1.      Hversu margir lögreglumenn skipa sérsveit ríkislögreglustjóra?
     Núna skipar 41 lögreglumaður sérsveit ríkislögreglustjóra.

     2.      Hver eru meðallaun sérsveitarmanna og hver eru meðallaun annarra lögreglumanna?
    Meðalheildarlaun sérsveitarmanna árið 2007 voru 7.414.834 kr.
    Meðalheildarlaun allra lögreglumanna í LL sama ár voru 6.480.836 kr.

     3.      Hver er meðalaldur lögreglumanna í sérsveitinni og hver er meðalaldur almennra lögreglumanna?
    Meðalaldur sérsveitarmanna er 35,7 ár. Meðalaldur annarra lögreglumanna er 42,5 ár.

     4.      Hver hefur kostnaðurinn af rekstri sérsveitar ríkislögreglustjóra verið sl. þrjú ár, og hvernig skiptist hann á einstaka liði t.d. laun, þjálfun, búnað o.s.frv.?
    Rekstrarkostnaður sérsveitar ríkislögreglustjóra undanfarin þrjú ár skiptist sem hér segir, í millj. kr.:

Liður 2007 2006 2005
Laun 311,9 255,1 183,7
Annar rekstrarkostnaður 92,8 99,0 51,4
Eignakaup 10,5 25,7 20,4
Alls 415,2 379,8 255,5

     5.      Hversu mörgum útköllum hefur sérsveitin sinnt sl. þrjú ár, sundurliðað eftir árum, og hvers eðlis hafa þessi útköll verið?
    Árin 2005–2007 voru verkefni sérsveitar ríkislögreglustjórans eftirfarandi:

Árið 2005
Almenn lögregluverkefni 4.262
Öryggisgæsla 18
Vopnuð lögreglustörf 36
Staðarlögregla aðstoðuð 44
Sprengjusérfræðingar 17
Kafarar 1
Alls 4.378
Árið 2006
Almenn lögregluverkefni 4.383
Öryggisgæsla 33
Vopnuð lögreglustörf 42
Staðarlögregla aðstoðuð 30
Sprengjusérfræðingar 15
Kafarar 6
Alls 4.509
Árið 2007
Almenn lögregluverkefni 5.017
Öryggisgæsla 21
Vopnuð lögreglustörf 53
Staðarlögregla aðstoðuð 56
Sprengjusérfræðingar 12
Kafarar 4
Alls 5.163

     6.      Í hve mörgum þessara útkalla var um almannahættu að ræða?
    Vísað er til 5. tölul. fyrirspurnarinnar um eðli útkalla sérsveitarinnar en þau eru ekki flokkuð með tilliti til almannahættu. Til þess að greina þetta þyrfti að fara í gegnum öll mál sem sérsveitin hefur komið að og leggja mat á hvert tilvik til þess að ákvarða hvenær lögregla er að sinna málum þar sem málsatvik geta hugsanlega valdið almannahættu. Slíkt verkefni er kostnaðarsamt og tímafrekt.

     7.      Hvernig er ákvörðun tekin um útkall sérsveitar?
    Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra (FMR) tekur við öllum símtölum til lögreglu sem berast Neyðarlínu og afgreiðir þau til úrlausnar. Í flestum tilvikum er það Fjarskiptamiðstöðin sem kallar sérsveitina út krefjist lögregluverkefni þess að mati Fjarskiptamiðstöðvarinnar einkum ef sérstök hætta er á ferðum vegna vopnaburðar, sprengihættu o.þ.h. Jafnframt getur staðarlögregla kallað út sérsveit í gegnum FMR af sömu ástæðu eða með því að hafa beint samband við yfirmenn sveitarinnar vegna verkefna sem vitað er um fyrir fram að þurfi aðkomu sérsveitar. Einnig getur sérsveit verið kölluð út vegna þess að neyðaráætlanir eru virkjaðar, þar sem sérsveit hefur ákveðið hlutverk. Þá er sveitin send í almenn útkallsverkefni eftir þörfum.
    Almennt gildir að sérsveit ríkislögreglustjórans skal kölluð út ef slíkt ástand skapast að maður/menn beita eða hóta að beita skotvopnum og/eða taka fólk í gíslingu. Eðli mála getur einnig verið með þeim hætti að um sé að ræða verkefni sem sérsveit er einni ætlað að sinna, svo sem kveðið er á um í neyðaráætlunum.
    Einnig er heimilt að kalla til sérsveitina vegna sérstakra verkefna, svo sem tilvika sem ætla má að hin almenna lögregla ráði ekki við með hefðbundnum aðferðum og tækjabúnaði, til að yfirbuga óvopnaðan mann/menn sem t.d. hafa birgt sig inni, við húsleitir hjá hættulegum mönnum, björgunaraðgerðir og við önnur slík tilvik þar sem ætla má að sérstök þjálfun sérsveitar og tækjabúnaður komi að notum.
    Þess ber að geta að sérsveitin gerir út merktar lögreglubifreiðir í umdæmum lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Akureyri. Sérsveitarmenn sinna þar öllum almennum lögreglustörfum, en um leið og útkall vegna vopnaburðar kemur upp eru sérsveitarmenn sendir umsvifalaust í verkefnið hvar sem er á landinu.
    Fyrirkomulag um útkall og annað verklag sérsveitar er að finna í verklagsreglum sérsveitar ríkislögreglustjórans.

     8.      Hvernig er starf sérsveitarinnar skipulagt og hvernig skiptist tími sérsveitarmanna milli þjálfunar og eiginlegra lögreglustarfa?
    Starfsemi sérsveitar ríkislögreglustjóra skiptist í þrjá þætti, almenn lögreglustörf, sérverkefni og þjálfun. Um 75% eða meira af vinnutíma er vegna lögregluverkefna og um 25% eða minna er vegna þjálfunar.

     9.      Ganga sérsveitarmenn almennar vaktir og sinna þeir útköllum til jafns við aðra lögreglumenn þegar þeir eru á vakt?
    Sjá svar við 5. lið fyrirspurnarinnar.
    Sérsveitarmenn ganga sólarhringsvaktir frá starfsstöðvum ríkislögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og á Suðurnesjum. Sérsveit sinnir þeim útköllum og verkefnum sem sveitin er send í af Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra. Þeir sinna því öllum almennum lögreglustörfum og starfa samkvæmt verkáætlun þar sem yfirlögregluþjónar lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Akureyri hafa komið að sínum áherslum og óskum um aðstoð frá sérsveitinni vegna sérstakra verkefna í umdæmunum. Náin samvinna er með yfirlögregluþjónum á landsvísu um verkefni sérsveitar og hefur sérsveit komið að verkefnum til stuðnings hjá lögregluliðum um land allt. Nægir að nefna ýmsar bæjarhátíðir, hestamannamót, ungmennafélagshátíðir og fleiri sambærileg verkefni. Er þá litið til þess að sérsveitarmenn eru þar fyrst og fremst að sinna almennum löggæslustörfum undir stjórn viðkomandi lögreglustjóra. Með þessum hætti er komið til móts við óskir um tímabundna fjölgun í lögregluliði vegna tímabundins viðburðar í viðkomandi lögregluumdæmi.