Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 177. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 259  —  177. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.



    Í umfjöllun um málið kallaði utanríkismálanefnd fulltrúa skilanefnda Landsbankans og Kaupþings á sinn fund. Fulltrúarnir gerðu grein fyrir eigna- og skuldastöðu bankanna og hvernig horfði við með að greiða út innstæðureikninga erlendis. Ekki er búist við að neinn kostnaður falli á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta vegna innstæðureikninga Kaupþings en önnur staða blasir við í tilfelli Landsbankans. Fram kom að eignir bankans eru metnar á um 1.000 milljarða kr. en jafnframt að mikil óvissa væri um það mat. Ríkið þarf að ábyrgjast greiðslur á 628 milljörðum kr. í lágmarkstryggingar vegna svokallaðra Icesave- reikninga Landsbankans. Eitthvað mun koma upp í á móti af eignum bankans en mikil óvissa ríkir um hve háar upphæðir sé þar um að ræða. Annað sem getur haft áhrif til íþyngingar ábyrgða ríkissjóðs er ef röð forgangskröfuhafa í eigur Landsbankans verður breytt, t.d. með dómi.
    Ljóst er að hér er þjóðin að taka á sig gríðarlegar skuldbindingar sem munu hafa áhrif á afkomu okkar nú – og komandi kynslóða um mörg ókomin ár. Telur 1. minni hluti með ólíkindum hversu illa ríkisstjórnarflokkarnir og lykilstofnanir hafa haldið á málum og skal þar m.a. eftirfarandi undirstrikað:
    Fram hefur komið að stjórnvöld hafa frá því á síðasta ári vitað af hættunni á því að innlán íslensku bankanna erlendis sem tryggð eru af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta gætu fallið á sjóðinn. Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir höfðu því um eitt ár til að bregðast við og grípa til aðgerða. Benda má á í þessu sambandi að heimilað var að opna svokallaða Icesave-reikninga í Hollandi í maí, mörgum mánuðum eftir viðvörunarbjöllurnar byrjuðu að hringja.
    Þá eru samskipti íslenskra ráðamanna við breska starfsbræður sína í aðdraganda og eftir beitingu hryðjuverkalaga í Bretlandi ámælisverð. Ráðherrum sem með þessi mál hafa farið tókst, með afar misvísandi og óskýrum skilaboðum til starfsbræðra sinna í Bretlandi, að koma málinu í frekara uppnám í stað þess að skýra það. Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur átt samtöl við breska ráðamenn sem virðast ekki hafa dugað til að skýra stöðu mála fyrir þeim. Í þessu sambandi vísast einnig í fund Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra og fleiri með Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, 2. september sl. og símtal Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra við sama ráðherra 7. október sl.
    Daginn eftir, þann 8. október, sagði Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, í útvarpsviðtali í Bretlandi: „Ríkisstjórn Íslands, hvort sem þið trúið því eða ekki, tjáði mér í gær að hún hafi ekki í hyggju að standa við skuldbindingar sínar.“
    Eðlilegt er að nefna í þessu sambandi að símtal fjármálaráðherranna lak til fjölmiðla og birtist opinberlega fyrst á Íslandi. Upplýsingaleki af þessum toga veldur óbætanlegum álitshnekki á íslenskri stjórnsýslu og stórskaðar stöðu Íslands í samskiptum við stjórnvöld annarra landa. Í kjölfar þessa er ólíklegt að ráðherrar annarra landa treysti sér til að eiga trúnaðarviðræður við íslenska stjórnvöld og ráðherra um nokkuð sem máli skipti um langt skeið.
    Seðlabankastjóri lýsti í ræðu sinni á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs 18. nóvember sl. að hann byggi yfir upplýsingum um af hverju breskum hryðjuverkalögum var beitt. Seðlabankastjóri sagði þar: „Þeir hafa hins vegar skýrt hvers vegna þeir gripu til þessa óyndisúrræðis. Það hafa ekki öll samtöl verið birt hvað þessi mál varðar og þess vegna er auðveldara að bera fram tilbúnar sakir og koma þeim inn hjá trúgjörnu fólki í gegnum þá fjölmiðla sem – grímulaust hafa verið misnotaðir í mörg ár – eins og það var orðað af sjónvarpsmanninum. Ég hef engar áhyggjur af þessu vegna þess að þegar málin verða rannsökuð þá hljóta fleiri samtöl að verða birt. Mér er kunnugt um efni þeirra og mér er kunnugt um hvað í raun réði afstöðu breskra yfirvalda.“ Þrátt fyrir þessi orð seðlabankastjóra hafa stjórnvöld ekki getað upplýst utanríkismálanefnd um orsakir beitingar bresku hryðjuverkalöggjafarinnar né heldur af hverju eignir séu enn frystar eftir að gengið var frá samkomulagi, m.a. við Breta, um sameiginleg viðmið.
    Ráðamenn í Bretlandi hafa hins vegar gefið sínar skýringar, svo sem Ian Pearson, aðstoðarráðherra efnahagsmála í breska fjármálaráðuneytinu, sem sagði í umræðum um fyrirskipun um kyrrsetningu eigna Landsbankans 2008 á öðrum fundi allsherjarnefndar neðri deildar breska þingsins 27. október 2008: „Ýmsar yfirlýsingar voru gefnar af forsætisráðherra Íslands um að íslenskir innstæðueigendur yrðu verndaðir, sem merkir að réttindi breskra kröfuhafa hefðu getað raskast í samanburði við réttindi annarra. Þrátt fyrir endurteknar tilraunir til að leita fullvissu gat ríkisstjórn Bretlands ekki fengið skýringar frá Íslandi um stöðu breskra kröfuhafa við upplausn Landsbankans. Í ljósi þessarar stöðu var fyrirskipun um kyrrsetningu eigna Landsbankans 2008 gefin út 8. október.“ Og síðar á sama fundi: „Ekki var gripið til aðgerða af hálfu Bretlands á grundvelli valdheimilda gegn hryðjuverkum í lögunum. Talið var nauðsynlegt að grípa til þessara aðgerða þar sem ríkisstjórn Íslands gat ekki skýrt stöðu breskra kröfuhafa við meðferð málsins og því var uppi ógn gegn efnahagslegum hagsmunum Bretlands.“
    Fram hefur komið að Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra gerði á fundi fjármálaráðherra ESB og EFTA-ríkjanna 4. nóvember sl. samkomulag um að leggja lagadeilu Íslands og nokkurra ESB-ríkja um túlkun á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi í mat sérstaks lagahóps. Lagahópurinn var skipaður fulltrúum ráðherraráðs ESB, framkvæmdastjórnar ESB, EFTA, Eftirlitsstofnunar EFTA og loks oddamanni tilnefndum af Seðlabanka Evrópu. Ekki tókst betur til við afmörkun starfsumboðs hópsins að íslensk stjórnvöld drógu sig út úr vinnu hans 7. nóvember. Hringlandaháttur og uppákomur af þessu tagi er ekki til þess fallið að auka traust á framferði stjórnvalda.
    Málatilbúnaður og framganga íslenskra stjórnvalda gagnvart Icesave-ábyrgðunum varð til þess að Ísland stóð að lokum eitt og einangrað. Öll ríki ESB, þar með talin hin norrænu, snerust gegn lagatúlkun íslenskra stjórnvalda.
    Fyrsti minni hluti átelur málsmeðferð vegna samkomulags íslenskra stjórnvalda við nokkur ríki ESB um sameiginleg viðmið til grundvallar frekari samningaviðræðum um innlánstryggingar. Minnt er á bókun undirritaðrar frá 14. nóvember sl. þess efnis að samkomulag um sameiginleg viðmið skyldi lagt fyrir Alþingi áður en það yrði undirritað af íslenskum stjórnvöldum, en ekki eftir á. Við þeirri ósk var ekki orðið. Veitti utanríkisráðherra sendiherra Íslands í Brussel umboð til undirritunar, án þess að Alþingi hefði fjallað um málið á eðlilegan hátt. Var samkomulagið undirritað 16. nóvember sl.
    Fyrsti minni hluti telur að með samkomulagi um sameiginleg viðmið, lið 1 og lið 2, hafi íslensk stjórnvöld í raun viðurkennt lagatúlkun ríkja Evrópusambandsins á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi. Sú lagatúlkun kveður á um að ríkjum beri að ábyrgjast lágmarksgreiðslur til innlánseigenda fari þær fram úr því sem tryggingarsjóðir innlánseigenda gætu staðið undir. Í viðmiðunum er óvissunni um lagatúlkun, sem íslensk stjórnvöld hafa haldið á lofti, ekki haldið til haga, hún hefur gufað upp og sést hvergi.
    Náist ekki viðunandi samningar, skv. lið 2 í viðmiðunum, við þau ríki þar sem svokallaðar Icesave-ábyrgðir fyrirfinnast er að mati 1. minni hluta útilokað í raun að stíga til baka og standa á margyfirlýstri fyrri skoðun um að vafi leiki á ábyrgð ríkja á tryggingarsjóðum, ekki síst undir kringumstæðum þar sem fjármálakerfi aðildarríkis hrynur nánast að fullu eins og gerðist hér á landi.
    Forustumenn þjóðarinnar, með forsætisráðherra í broddi fylkingar, hafa lýst því yfir að ekki sé boðlegt að tengja lausn á Icesave-deilunni við afgreiðslu láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Smátt og smátt varð hins vegar ljóst að afgreiðslu láns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands var ítrekað frestað vegna krafna viðsemjenda okkar um að lausn fengist á Icesave- ábyrgðunum. Málatilbúnaður og framganga íslenskra stjórnvalda einangraði stöðu Íslands þannig að líta ber á umsömdu viðmiðin í því ljósi. Með samþykkt viðmiðanna losnaði um þau höft sem lögð voru á afgreiðslu láns til Íslands frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Voru íslensk stjórnvöld algerlega komin út í horn í báðum þessum málum, lánsbeiðninni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Icesave-ábyrgðunum. Viðmiðin eru niðurstaðan sem íslensk stjórnvöld samþykktu í þeirri veiku samningsstöðu sem þau sjálf höfðu komið sér í. Fyrsti minni hluti er ekki tilbúinn til að bera ábyrgð á þeirri stöðu sem ríkisstjórnarflokkarnir komu sér sjálfir í með framgöngu sinni allt frá því að viðvaranir um stöðu bankanna komu fram á seinni hluta síðasta árs til dagsins í dag. Fyrsti minni hluti er því ekki samþykkur þingsályktunartillögu þessari heldur mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. des. 2008.



Siv Friðleifsdóttir.