Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 210. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 380  —  210. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 47/2006, um kjararáð.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Björnsson og Björn Rögnvaldsson frá fjármálaráðuneyti, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Guðrúnu Zoëga frá kjararáði, Hauk Ingibergsson frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, Eggert Óskarsson frá Dómarafélagi Íslands og Magnús Björn Björnsson frá Prestafélagi Íslands. Einnig hafa nefndinni borist umsagnir frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, kjararáði, Félagi starfsmanna Alþingis, Seðlabanka Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Félagi starfsmanna Stjórnarráðsins, Sýslumannafélagi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Dómarafélagi Íslands og skrifstofustjórum í menntamálaráðuneyti. Þá hefur nefndinni borist tilkynning frá Hagstofu Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að kjararáð úrskurði fyrir lok ársins að laun alþingismanna og ráðherra lækki tímabundið um 5–15%. Einnig er lagt til að kjör annarra sem heyri undir ráðið verði endurskoðuð í kjölfarið og til samræmis. Lögð er sérstök áhersla á að þeir sem hæstu launin hafa lækki hlutfallslega mest.
    Aðilar almenna vinnumarkaðarins styðja frumvarpið og telja eðlilegt að laun þeirra sem frumvarpið varðar taki mið af almennri þróun á vinnumarkaði. Þar hafi margir misst vinnu að undanförnu eða orðið að sæta launalækkun og/eða minnkun starfshlutfalls sem rekja megi til efnahagsástandsins.
    Fram kom það sjónarmið á fundum nefndarinnar að skerðing á launum starfsmanna ríkisstofnana ætti í mörgum tilvikum ekki rétt á sér þar sem núverandi árferði hefði leitt til aukins vinnuálags. Dómarafélag Íslands taldi, öndvert við það sem haldið er fram í almennum athugasemdum, að héraðsdómur í máli E-1939/2006 gæfi ekki tilefni til að ætla að frumvarpið samrýmdist grunnreglum um sjálfstæði dómsvaldsins, sbr. 2. og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Félag forstöðumanna ríkisstofnana taldi að 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrár reisti því skorður að löggjafinn breytti málsmeðferðarreglum um starfskjör embættismanna endurtekið og lagði til að frumvarpið yrði einskorðað við alþingismenn og ráðherra. Prestafélag Íslands taldi að frumvarpið væri til þess fallið að draga úr hlutleysi kjararáðs.
    Nefndin ræddi hvort einskorða ætti frumvarpið við alþingismenn og ráðherra en eftir ítarlegar umræður telur hún að þannig verði tilgangi þess ekki náð með fullnægjandi hætti. Bendir hún á að mikil áföll hafa dunið yfir þjóðina og tekjustofnar ríkissjóðs hafa skroppið saman. Viðbúið er að ríkissjóður muni þurfa að standa undir miklum útgjöldum á næstunni vegna falls bankanna og jafnvel vegna innlánsreikninga íslenskra banka erlendis. Einnig er viðbúið að vaxtagreiðslur vaxi umtalsvert. Á sama tíma er gerð krafa um að ríkissjóður verði innan skamms tíma hallalaus. Því má mæta með skattahækkun eða með niðurskurði gjalda. Skattahækkunum þarf að beita mjög varlega þar sem bæði einstaklingar og fyrirtæki standa mjög veikt eftir áföllin þó að eitthvað megi beita þeim. Niðurskurður gjalda markast af því að yfir 70% ríkisútgjalda er launakostnaður og flestir aðrir liðir eru tengdir gengi erlendra mynta, sem hefur stórhækkað, og því erfitt að lækka þá liði. Því verður ekki séð hvernig hægt verður að komast hjá lækkun launakostnaðar hjá ríkinu. Slíkri lækkun má ná fram með eftirfarandi hætti: fækkun starfsmanna með uppsögnum eða ráðningastoppi, ráðningu starfsmanna í hlutastarf í stað fullrar stöðu, afnámi yfirvinnu og aukagreiðsla eða með beinni lækkun launa í kjarasamningum. Ekki er talið æskilegt að auka atvinnuleysi með fyrstu leiðinni og því verður að fara blöndu af síðari leiðunum þremur. Síðasta leiðin, bein launalækkun, þarf að hlífa þeim sem lægst hafa launin, t.d. þeim sem eru með tekjur undir 250.000 kr. á mánuði. Það er sú leið sem bent hefur verið á á hinum almenna markaði. Nefndin telur að frumvarpið sé einmitt leið að því marki og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt.
    Nefndin leggur til að felldur verði burt fyrirvari um að kjararáð endurskoði kjör annarra sem undir ráðið heyra svo fljótt sem unnt er heldur verði það gert samtímis endurskoðun á kjörum alþingismanna og ráðherra. Jafnframt telur nefndin að fengnum ábendingum ekki þörf á að hafa sérstakan fyrirvara í frumvarpstextanum er lýtur að stjórnskipulegri sérstöðu dómstóla og leggur til að hann falli brott.
    Kjararáð tók ekki efnislega afstöðu til frumvarpsins en lagði áherslu á að tryggja yrði greiðari aðgang þess að upplýsingum um laun til að það gæti sinnt starfsskyldum sínum. Nefndin tekur undir það sjónarmið og leggur því til breytingu á 6. gr. laga um kjararáð um það efni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við bætist ný grein sem verði 1. gr., svohljóðandi:
                  Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
              a.      Við 1. málsl. bætist: og launagreiðendum þeirra sem heyra undir kjararáð.
              b.      Í stað orðanna „störfum þeirra“ í 2. málsl. kemur: störfunum.
     2.      Við 1. gr. Orðin „svo fljótt sem auðið er“ og „að teknu tilliti stjórnskipulegrar sérstöðu dómara“ í 3. málsl. efnismálsgreinar falli brott.

    Gunnar Svavarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og styður álitið.

Alþingi, 17. des. 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson.



Bjarni Benediktsson.


Birkir J. Jónsson.


Lúðvík Bergvinsson.



Rósa Guðbjartsdóttir.


Árni Þór Sigurðsson.