Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 228. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 406  —  228. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneyti, Skúla Eggert Þórðarson og Ingvar J. Rögnvaldsson frá ríkisskattstjóra, Sigríður Lillý Baldursdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Guðlaug Stefánsson frá Samtökum atvinnulífsins og Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands. Þá hefur nefndinni borist umsögn frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum tekjuskattslaga. Þar af má nefna ákvæði sem varða skattfrelsi greiðslna Endurhæfingarsjóðs, meðferð söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði, skilyrði vaxtabóta, skilyrði barnabóta, einföldun framtalsskila og sjálfvirka upplýsingaskyldu. Einnig er í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða sem ætlað er að koma í veg fyrir afturvirk áhrif laga nr. 38/2008 á tilgreinda söluaðila hlutabréfa.
    Nefndin ræddi sérstaklega ákvæði 7. gr. frumvarpsins um sjálfvirka upplýsingaskyldu banka, sparisjóða og annarra fjármálafyrirtækja gagnvart skattyfirvöldum. Fram kom að tilgangur þess væri að tryggja jafnræði í skattframkvæmd, þ.m.t. við álagningu skatta, skattívilnanir og greiðslu bóta. Skattyfirvöld gætu á grundvelli þess haft eftirlit með að fjármálafyrirtæki haldi réttilega eftir staðgreiðslu skatta vegna tilgreindra fjármagnstekna. Þá væri ákvæðið liður í áformum skattyfirvalda skv. 6. gr. frumvarpsins um að aflétta framtalsskyldu af tilgreindum hópi framteljanda.
    Á fundum nefndarinnar var sjálfvirk upplýsingaskylda rædd annars vegar með hliðsjón af þeim trúnaðarskyldum sem bankar bera almennt gagnvart viðskiptavinum sínum og hins vegar með tilliti til sérstakra aðstæðna í íslensku efnahagslífi. Undirstrikað var það sjónarmið að greiður aðgangur að umræddum upplýsingum gerði framkvæmd skattskila áreiðanlegri. Aðrir töldu að frumvarpsgreinin væri of víðtæk og til þess fallin að rýra traust á íslensku fjármálakerfi.
    Nefndin leggur til breytingu á 7. gr. frumvarpsins og er hún gerð til að sætta öndverð sjónarmið skattyfirvalda og Samtaka fjármálafyrirtækja í málinu. Til viðbótar við það sem að framan er rakið hefur verið bent á að það geti reynst tæknilega erfitt að afhenda umræddar upplýsingar.
    Nefndin leggur einnig til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins. Auk þess bendir nefndin á að henni hafa verið gefnar þær skýringar á ákvæðum 1. gr. og a. liðar 2. gr. frumvarpsins að um formbreytingu sé að ræða.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 7. gr. Orðin „og um skuldir“ og „og hvers hvers konar sjóðsreikningum” falli brott.
     2.      Við 8. gr. Eftirfarandi breytingar verða á greininni:
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                     Ákvæði 1., 2., 3., 4. og 9. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009.
                  b.      3. mgr. falli brott.

    Birkir J. Jónsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 18. des. 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson.



Bjarni Benediktsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Katrín Jakobsdóttir.



Rósa Guðbjartsdóttir.