Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 256. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 416  —  256. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir,


Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á tekjuskattsstofn manna vegna tekna frá 1. mars skal frá þeim degi leggja þrepaskipt álag á hærri tekjur eins og nánar greinir í ákvæði þessu.
    Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 6.000.000 kr. eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 12.000.000 kr. skal reikna sérstakan tekjuskatt. Sérstakur tekjuskattur vegna tekna áranna 2009 til og með 2010 skal vera 3%. Ef hjón hafa bæði tekjuskattsstofn umfram 6.000.000 kr. reiknast þeim sinn hlutinn hvoru hins sérstaka tekjuskatts. Sé tekjuskattsstofn annars hjóna lægri en 6.000.000 kr. reiknast hinu hjóna allur sérstaki tekjuskatturinn.
    Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 8.400.000 kr. eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 16.800.000 kr. skal reikna sérstakan tekjuskatt. Sérstakur tekjuskattur vegna tekna áranna 2009 til og með 2010 skal vera 8%. Ef hjón hafa bæði tekjuskattsstofn umfram 8.400.000 kr. reiknast þeim sinn hlutinn hvoru hins sérstaka tekjuskatts. Sé tekjuskattsstofn annars hjóna lægri en 8.400.000 kr. reiknast hinu hjóna allur sérstaki tekjuskatturinn.
    Sérstakur tekjuskattur samkvæmt ákvæði þessu skal innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda, þó ekki fyrr en 1. mars 2009.
    Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun staðgreiðslu sem honum hefur verið gert að greiða skv. 4. mgr. Umsókn um slíka lækkun skal senda skattstjóra sem úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar. Ákvörðun skattstjóra er kæranleg til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu úrskurðar skattstjóra. Ríkisskattstjóri skal kveða upp úrskurð sinn innan 15 daga frá því að kæra barst honum og skal úrskurður hans vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.
    Skattstjóri skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn gjaldanda nema hann geti sýnt fram á að veruleg tekjulækkun hafi orðið hjá honum milli mánaða þannig að álagning hins sérstaka tekjuskatts eigi ekki við. Ríkisskattstjóra er heimilt að setja nánari reglur um þetta atriði.
    Um sérstakan tekjuskatt samkvæmt ákvæði þessu skulu ákvæði VIII.–XIII. kafla laganna gilda eftir því sem við á.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi er það augljóst sanngirnismál að þeir sem meira hafa milli handanna leggi mest af mörkum til samneyslunnar og endurreisnar íslensks samfélags. Enginn vafi er á því að hinir tekjuhæstu hafa færi á því að taka á sig hóflegt skattaálag á laun ofan við tiltekin viðmiðunarmörk án verulegrar lífskjaraskerðingar, en þeir tekjulægri hafa til þess minni eða enga möguleika. Hér eru lagðar til breytingar á skattkerfi þjóðarinnar sem miða að því að auka tekjur ríkissjóðs til þess að létta undir með þeim tekjulægstu, þ.e. þeim sem núverandi efnahagsþrengingar bitna mest á.
    Frumvarpið sem hér er lagt fram er öðrum þræði leiðrétting á þeim mistökum sem gerð voru þegar hátekjuskatturinn svokallaði var lækkaður í áföngum og loks afnuminn árið 2006. Enginn vafi leikur á að þær skattalækkanir sem afnám hátekjuskattsins var hluti af eiga sinn þátt í ofþenslu sem að lokum leiddi ásamt með fleiru til þeirra efnahagsþrenginga sem við stöndum nú frammi fyrir. Við það bætist óréttlætið sem fólst í því að lækka skatta kerfisbundið á þá sem höfðu hæstu tekjurnar á tímum þar sem sannkölluð ofurlaun héldu einmitt innreið sína en láta skattleysismörkin fara lækkandi að raungildi á sama tíma. Hér er lagt til að snúið verði af þeirri braut og mörkuð heilbrigðari og mannúðlegri skattastefna sem byggist á sanngjarnari dreifingu byrðanna í íslensku samfélagi.
    Lög þessi öðlast þegar gildi en framkvæmd þeirra hefst 1. mars svo að launagreiðendum gefist tækifæri til að aðlaga launakerfi að hinu nýja fyrirkomulagi.
    Tekjur ríkissjóðs af frumvarpinu má gróflega áætla með því að miða við þá upphæð sem slíkur skattur hefði gefið í septembermánuði sl. samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra. Eins og sjá má á töflunni í fylgiskjali I eru heildartekjur af álaginu 3.439 millj. kr ef miðað er við 4% lækkun launa frá því í september sl. Gera verður ráð fyrir að þónokkur fækkun verði í þeim hópi sem á næsta ári verður með laun ofan þeirra marka sem álagið leggst á miðað við það sem var í septembermánuði sl. Einnig að um nokkra viðbótarraunlækkun launa verði að ræða og er því gert ráð fyrir að skatttekjur verði 10% lægri á næsta ári en þær hefðu orðið miðað við útreikningana í september sl. Þar sem veittur er aðlögunar- og undirbúningstími til 1. mars nk. koma inn tekjur vegna tíu mánaða á næsta ári. Er gert ráð fyrir af þeim sökum að tekjuauki ríkissjóðs með þessari breytingu verði nálægt 2.600 millj. kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


1. gr.

    Samkvæmt þessu ákvæði skal lagt þrepaskipt álag á hærri tekjur. Í lægra þrepi verði lagður 3% skattur á tekjur manna umfram ákveðin mörk, en í hinu hærra 5% skattur til viðbótar eða samtals 8% skattur á tekjur manna umfram ákveðin mörk.
    Þegar um er að ræða hjón sem bæði hafa tekjur sem lenda í sérstökum skatti er gert ráð fyrir að skattinum verði skipt hlutfallslega í samræmi við tekjur þeirra umfram þau mörk sem ákveðin eru í ákvæðinu.

2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Tekið úr staðgreiðslusundurliðunum vegna september 2008.

(Laun voru lækkuð um 4% áður en stofn var fundinn.)



Ógiftir Fjöldi einstaklinga
Stofn í september Viðbótarskattur í september Skattur á ári 141.091 undir mörkum
3% 600.667.451 18.020.024 12 216.240.282 7.700 lægri
8% 1.417.191.507 113.375.321 12 1.378.920.656 3.992 hærri
1.595.160.938 11.692 samt
Hjón Fjöldi einstaklinga
Stofn í september Viðbótarskattur í september Skattur á ári 46.398 undir mörkum
3% 781.792.956 23.453.789 12 281.445.464 4.850 lægri
8% 1.627.709.188 130.216.735 12 1.562.600.820 2.404 hærri
1.844.046.284 7.254 samt
Hjón og ógiftir Fjöldi einstaklinga
Stofn í september Viðbótarskattur í september Skattur á ári 233.887 undir mörkum
3% 1.382.460.407 41.473.812 24 497.685.747 17.400 lægri
8% 3.044.900.695 243.592.056 24 2.941.521.476 8.200 hærri
3.439.207.222 259.487 samt





Fylgiskjal II.


Reiknuð tekjuskattsprósenta á launatímabil miðað við ákvæði frumvarpsins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.