Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 106. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 472  —  106. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um geðheilbrigðismál.

     1.      Hve stórum hluta heilbrigðisútgjalda er nú varið til geðheilbrigðismála?
    Til að fá mynd af útgjöldum til geðheilbrigðismála voru helstu útgjaldaliðir fjárlaga og ríkisreiknings ársins 2007 sem taka til geðheilbrigðismála teknir saman. Forsvarsmenn helstu stofnana sem veita blandaða þjónustu voru beðnir um að áætla hve stór hluti af útgjöldum þeirra fer til geðheilbrigðisþjónustu. Þetta eru Landspítalinn, FSA, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Reykjalundur. Geðheilbrigðisþjónusta heilsugæslunnar er veitt á margvíslegan hátt. Stærsti þáttur hennar er innan almennu læknisþjónustunnar. Erfitt er að meta þann þátt í útgjöldum þar sem upplýsingar liggja ekki fyrir um tíðni greininga af þessum toga né hversu stór hluti tíma lækna fer í vandamál tengd geðheilsu. Áætla má að um 30% samskipta heimilislækna tengist að meira eða minna leyti geðrænum einkennum, hvert svo sem tilefnið er. Utan þessa hefur heilsugæslan komið upp skipulögðum einingum sem auðveldara er að skilgreina út frá útgjöldum þó þar séu undantekningar á. Nefna má að geðteymi barna og starf sálfræðinga á heilsugæslustöðvum kallar á teymisvinnu með læknum og hjúkrunarfræðingum sem ekki bókfærist á útgjaldaliði vegna þessarar starfsemi. Starfsemi þeirra er hluti af grunnþjónustu heilsugæslunnar. Starf skólahjúkrunarfræðinga er einnig erfitt að skilgreina undir einstaka greiningar vandamála en ætla má að stór hluti barna sem leita til þeirra að eigin frumkvæði eigi við einhver sál-félagsleg vandamál að stríða.
    Hér fylgir með listi yfir þau sértæku forvarna-, meðferðar- og greiningarúrræði sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) hefur komið upp.
          Geðteymi í Grafarvogi.
          Geðiðjuþjálfun Bolholti.
          Greiningarteymi Miðstöðvar heilsuverndar barna.
          Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum.
          Hugræn atferlismeðferð.
          Geðteymi Miðstöðvar heimahjúkrunar.
          Skimun fyrir þunglyndi eftir fæðingu.
          Heilsugæsla í framhaldsskólum.
          Unglingamóttaka heilsugæslustöðva.
          Verkefnið Agi til forvarnar – uppeldi sem virkar.
    Ef tekin eru saman útgjöld til þessara verkefna sérstaklega þá hafa þau farið vaxandi sem hlutfall af heildarútgjöldum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tafla 5 sýnir útgjöld til þessara verkefna á undanförnum sex árum.
    Á landsbyggðinni eru tiltekin verkefni sem heilbrigðisráðuneytið hefur fjármagnað en gera má einnig ráð fyrir að hluti af þeirri grunnþjónustu sem fer fram á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni sé geðheilbrigðisþjónusta, einkum á sviði forvarna.
    Heildarútgjöld til heilbrigðismála árið 2007 voru samkvæmt þjóðhagsreikningi 117,3 milljarðar. Þar af voru útgjöld til geðheilbrigðismála rúmlega 7,6 milljarðar sem er 6,51% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála (sbr. töflu 1). Gera má ráð fyrir að þetta sé eingöngu hluti af útgjöldum til geðheilbrigðismála þar sem þjónusta getur verið fjármögnuð af félagsmálayfirvöldum og/eða sveitarfélögum, t.d. þjónusta við geðfatlaða.

Tafla 1. Útgjöld til geðheilbrigðismála 2007.
LSH 3.049.480.000
FSA 351.990.000
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðis 203.725.633
Reykjalundur 147.000.000
SÁÁ 657.248.000
Hlaðgerðarkot 75.800.000
Krísuvík 60.900.000
Geðhjálp 4.800.000
Bjarg 47.800.000
Sogn 200.718.000
Geðlæknisþjónusta á Litla-Hrauni 15.777.682
Sérfræðilæknar – geðlækningar – Sjúkratryggingar Íslands 233.893.123
Dvalarheimilið Ás – öldrunargeðrými 169.053.000
Dvalarheimilið Fellsendi – öldrunargeðrými 161.251.000
Önnur verkefni
Ný leið 2.000.000
Heilbrigðisstofnun Austurlands 3.000.000
Heilbrigðisstofnun Suðausturlands 1.000.000
Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ 3.000.000
Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki 1.000.000
Heilbrigðisstofnun Austurlands 1.100.000
Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ 1.100.000
Reykjanesbær 2.000.000
Heilsugæslustöðin Akureyri 9.700.000
Heilbrigðisstofnunin Akranesi 6.000.000
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 7.100.000
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 11.500.000
Lyfjakostnaður TR vegna tauga- og geðlyfja 2.205.000.000
Samanlagt 7.632.936.438
Hlutfall af heildarútgjöldum samkvæmt þjóðhagsreikningi

6,51%


Aðrir þættir.
Tafla 2. Sértekjur LSH – hlutur sjúklings.
Beinar sértekjur* geðsviðs árin 2003 til 2007 skipt í helstu þjónustuþætti
Í millj. kr. á verðlagi hvers árs 2003 2004 2005 2006 2004
Heildarrekstrarkostnaður geðsviðs -26,7 -64,0 -68,6 -80,7 -95,6
1 Barna- og unglingageðdeild** -3,4 -35,1 -35,5 -37,8 -59,2
Hlutfall af heild 12,6% 54,9% 51,8% 46,8% 61,9%
2 Framhaldsmeðferð, endurhæfing -2,7 -2,7 -4,4 -4,5 -4,5
Hlutfall af heild 10,0% 4,2% 6,5% 5,6% 4,7%
3
Vímuefnasjúkdómar (deild 33A, deild 36, göngudeild og sambýli) -4,4 -5,4 -4,2 -3,9 -4,1
Hlutfall af heild 16,3% 8,4% 6,1% 4,9% 4,3%
4
Bráðaþjónusta (geðdeild 12), göngudeild geðsviðs og Hvítaband -11,1 -13,8 -11,7 -11,6 -13,9
Hlutfall af heild 41,6% 21,6% 17,1% 14,4% 14,5%
5 Almennar geðdeildir 0,0 -0,8 -2,2 -1,8 -2,1
Hlutfall af heild 0,0% 1,3% 3,2% 2,2% 2,2%
6

Samkostnaður (sviðsstjórn, sálfræðiþj, sjúkraþj, félagsráðgj, iðjuþj, sameiginl. vaktakostn. lækna og annar samkostn.)*** -5,2 -6,2 -10,6 -21,0 -11,9
Hlutfall af heild 19,4% 9,6% 15,4% 26,1% 12,4%
* Sértekjur án innri viðskipta
** Þjónustusamningur BUGL við Barnaverndarstofu kom inn 2004. Árið 2007 fékk BUGL meiri peningagjafir en fyrri ár.
*** Tekjur Bergiðjunnar, tekjur vegna rannsóknarverkefna ofl.

Endurgreiðsla vegna lyfja.
    Í upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) um lyfjakostnað árið 2007 kemur fram að lyfjakostnaður TR nam 7.055 millj. kr. Aukningin frá fyrra ári er 5% eða um 352 millj. kr. Greina má aukningu í kostnaði í öllum lyfjaflokkum, þó mest í flokki tauga- og geðlyfja, um 136 millj. kr. Tauga- og geðlyf (ATC flokkur N) eru kostnaðarsamasti lyfjaflokkurinn hjá TR og kostuðu lyf í þeim flokki 2.205 millj. kr. Hafa verður hugfast að í ATC flokki N eru önnur lyf en geðlyf, svo sem lyf sem notuð eru vegna taugasjúkdóma, róandi lyf og svefnlyf.
    
Hlutur sjúklings í þjónustu sjálfstætt starfandi geðlækna.
    
Alls voru 36.766 komur til sjálfstætt starfandi geðlækna á árinu 2007. Útgjöld Sjúkratrygginga Íslands vegna þessara koma námu rúmlega 233 millj. kr., sjá töflu 2. Hlutur sjúklings við hverja komu er 2.271 króna eða 26,3% af heildarútgjöldum vegna komu.

Tafla 3. Komur til sjálfstætt starfandi geðlækna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hve stórum hluta útgjalda Landspítalans er varið til geðdeildar og hvernig hefur þróunin verið undanfarinn áratug?
    Frá árinu 2000 til 2007 er rekstrarkostnaður geðsviðs 8,9 - 10,1% af heildar rekstrarkostnaði LSH (sbr. töflu 2).

Tafla 4.
Ár Hlutfall geðsviðs af heildarkostnaði í rekstrarreikningi LSH
2007 10,1%
2006 9,4%
2005 9,4%
2004 9,4%
2003 8,9%
2002 9,3%
2001 9,8%
2000 10,1%

    Frá árinu 2003 hefur verkefnunum tengdum geðheilbrigðisþjónustu innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fjölgað úr tveimur í tíu. Í krónum talið hafa útgjöld vegna þeirra aukist úr 44 milljónum í 240 milljónir.

Tafla 5.     
Ár Hlutfall útgjalda vegna geðheilbrigðisþjónustu af heildarkostnaði í rekstrarreikningi HH
2003 1,43%
2004 2,18%
2005 3,76%
2006 4,27%
2007 4,14%
2008 4,41%

     3.      Hvernig dreifast útgjöld til geðheilbrigðismála milli ólíkra þátta í þjónustunni, svo sem a) bráðaþjónustu, b) endurhæfingar, c) þjónustu við börn, unglinga og aldraða, og d) forvarna og fræðslu?
    Erfitt er að leggja mat á hvernig útgjöld dreifast á ólíka þætti þjónustunnar. Í töflu 1 má sjá hvernig útgjöld dreifast á þær stofnanir sem veita geðheilbrigðisþjónustu.
     a)      Bráðaþjónusta er einkum veitt á Landspítalanum og á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
     b)      Endurhæfingarþjónusta er m.a. veitt á Landspítalanum, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Reykjalundi og HNLFÍ.
     c)      Þjónusta við börn og unglinga er einkum veitt á Landspítalanum og á miðstöð heilsuverndar barna innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Á öldrunarheimilunum Ási í Hveragerði og Fellsenda í Búðardal eru rekin samtals 56 öldrunargeðrými.
     d)      Forvörnum og fræðslu er sinnt af heilsugæslunni. Miðstöð heimahjúkrunar rekur geðteymi og miðstöð foreldra og barna heldur utan um greiningarteymi svo eitthvað sé nefnt. Einnig hafa verið sett af stað verkefni á vegum Lýðheilsustöðvar eins og Vinir Zippys sem er fræðsluefni um geðrækt, ætlað ungum nemendum. Verkefnið Þjóð gegn þunglyndi á vegum landlæknisembættisins er forvarna- og fræðsluverkefni um þunglyndi. Á vegum þess hefur verið komið upp vefnum umhuga.is þar sem hægt er að finna efni um geðheilsu barna og unglinga.
    Í töflu 6 má sjá rekstrarkostnað geðsviðs LSH eftir helstu þjónustuþáttum. Þessar tölur gefa vísbendingar um dreifingu útgjalda til geðheilbrigðismála.

Tafla 6. Rekstrarkostnaður geðsviðs LSH skipt eftir helstu þjónustuþáttum.
Beinn heildarrekstrarkostnaður* geðsviðs árin 2003 til 2007 skipt í helstu þjónustuþætti**     
Í milljónum króna á verðlagi hvers árs 2003 2004 2005 2006 2007
Heildarrekstrarkostnaður geðsviðs 2.238,1 2.366,8     2.508,2     2.806,6     3.049,5
1 Barna- og unglingageðdeild 313,7 360,3 391,4 421,1 432, 9
Hlutfall af heild 14,0% 15,2% 15,6% 15,0% 14,2%
2 Framhaldsmeðferð, endurhæfing 669,3 743,4 717,0 795,3 835,8
Hlutfall af heild 29,9% 31,4% 28,6% 28,3% 27,4%
3
Vímuefnasjúkdómar (deild 33A, deild 36, göngudeild og sambýli) 259,3 259,0 307,9 330,5 360,3
Hlutfall af heild 11,6% 10,9% 12,3% 11,8% 11,8%
4
Bráðaþjónusta (geðdeild 12) göngudeild geðsviðs og Hvítaband 528,6 258,8 286,7      340,5 403,8
Hlutfall af heild 23,6% 10,9% 11,4% 12,1% 13,2%
5 Almennar geðdeildir 0,0 491,7 542,6 610,1 657,9
Hlutfall af heild 0,0% 20,8% 21,6% 21,7% 21,6%
6

Samkostnaður (sviðsstjórn., sálfræðiþj., sjúkraþj., félagsráðgj., iðjuþj., sameiginl. vaktakostn. lækna og annar samkostn.) 467,3 253,7 262,6 309,1 358,8
Hlutfall af heild 20,9% 10,7% 10,5% 11,0% 11,8%
*Rekstrarkostnaður án innri viðskipta og kostnaðarheimfærslna.
**Vegna skipulagsbreytinga í bókhaldi verður víxlun milli þjónustuþátta 3, 4, 5 og 6 milli áranna 2003 og 2004

    Á undanförnum sex árum (2002–2008) hafa framlög til geðheilbrigðismála verið aukin með því að verja fjármunum til ákveðinna verkefna, alls 703 millj. kr.
          Móttöku- og göngudeildarstarfsemi á FSA og LSH
          Teymisvinna (barnateymi HH, hreyfanlegt fagteymi á LSH, vettvangsteymi LSH, samstarfsteymi HH)
          Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga (stækkun BUGL, bætt aðgengi að sérfræðingum, stytting biðlista á BUGL o.fl.)
          Deild fyrir alvarlega geðsjúka
          Fræðslu- og ráðgjafahlutverk BUGL styrkt.

     4.      Hver hefur árlegur kostnaður við menntun og sérmenntun fagfólks í geðheilbrigðisstéttum verið undanfarin fimm ár?
    Menntun og sérmenntun geðheilbrigðisstétta fer að miklu leyti fram á Landspítala. Í töflu 7 má sjá þriggja ára þróun í milljónum króna.

Tafla 7. Áætlaður kostnaður við menntun og sérmenntun fagfólks á LSH.
Áætlaður kostnaður m.kr. 2005 Áætlaður kostnaður m.kr. 2006 Áætlaður kostnaður m.kr. 2007
Fagfólk í starfsnámi eftir háskólapróf 1.019,4 1.102,2 1.132,5
Nemendur í grunnnámi á háskólastigi 109,8 133,3 137,0
Nemendur á framhaldsskólastigi 91,0 140,8 144,7
Þjónusta við nemendur 95,9 106,6 109,5
Menntunarkostnaður alls 1.316,0 1.482,9 1.523,7
Hlutfall geðsviðs 113,2 129,0 129,5
Hlutfall geðsviðs af heildarkostnaði LSH var 8,6% árið 2005, 8,7% árið 2006 og 8,5% árið 2007.

    Í töflu 7 má sjá áætlaðan kennslukostnað heilbrigðisstétta á LSH yfir þriggja ára tímabil. Hlutfall geðsviðs er reiknað sérstaklega. Stærsti liður töflunnar er kostnaður vegna starfsnáms eða þjálfunar heilbrigðisstarfsfólks, einkum lækna; lækna á kandidatsári sem er nauðsynlegt til lækningaleyfis og deildarlækna, en þeir eru læknar að taka sín fyrstu skref í sérnámi. Helsta ástæðan fyrir mikilli hækkun á menntunarkostnaði milli áranna 2005 og 2006 er fjölgun á nemavikum og nákvæmari upplýsingasöfnun um nema, síðan er það launaliður og annar rekstur sem eykst milli ára.
    LSH gaf út skýrslu sem kom út árið 2006 sem ber heitið: „Hvað kostar að vera háskólasjúkrahús?“ Þegar allt er talið fæst að það kostar LSH 11,5% af rekstrarkostnaði að vera háskólasjúkrahús.

     5.      Hverjar eru helstu áherslur og nýjungar í meðferð, rannsóknum, kennslu og þjónustu við geðsjúka?

WHO.
    Frá 1998 hefur áhersla á geðheilbrigðismál aukist í alþjóðlegu samhengi, til að mynda samþykktu heilbrigðisráðherrar Evrópudeildar aðildarríkja WHO aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum árið 2005, sk. Helsinkisáttmála. Í honum eru sett í forgang verkefni sem snúa að heilsueflingu og forvörnum á sviði geðheilbrigðismála.
    Í Evrópsku aðgerðaráætluninni er lögð áhersla á að næsta áratuginn (2005–2015) séu eftirfarandi mál höfð í forgangi:
     1.      Að stuðlað sé að góðu geðheilbrigði allra og að skilningur á mikilvægi góðrar geðheilsu verði aukinn.
     2.      Að unnið sé gegn fordómum, mismunun og ójafnræði.
     3.      Að móta og innleiða samþætt og skilvirkt heildarkerfi í geðheilbrigðismálum sem nær til kynningarstarfs, forvarna, meðferðar, endurhæfingar, umönnunar og bata.
     4.      Að mæta þörf fyrir hæft starfsfólk sem skilar árangri á öllum sviðum.
     5.      Að byggja stefnu á þekkingu og reynslu þjónustuþega og umönnunaraðila.
    Áhersla er lögð á að geðheilbrigði sé órjúfanlegur hluti heilbrigðis.
    Nýlega sendi Evrópuskrifstofa WHO frá sér skýrslu þar sem skoðuð eru gögn um geðheilbrigðisþjónustu í 42 löndum í Evrópu (Ísland er ekki meðal þessara landa). Þar kemur fram að 38 af 42 löndum hafa mótað stefnu í geðheilbrigðismálum.
    Í þessum gögnum kemur fram vaxandi áhersla á innleiðingu þjónustuúrræða sem veitt eru í samfélaginu með minni áherslu á stofnanavæðingu. Notendur þjónustu eru í vaxandi mæli hafðir með í ráðum þegar þjónustan er skipulögð.

Helstu nýjungar í starfi geðsviðs Landspítala.
ÞJÓNUSTA
          Innleiðing fjölskylduhjúkrunar á allar geðdeildir.
          Bætt þjónusta á BUGL (lengdur opnunartími BUGL, fleiri starfsmenn í móttöku, stækkun þverfaglegs vettvangsteymis BUGL og ráðgjafar- og kennsluhlutverk BUGL styrkt).
          Innleiðing á „partnership“ hugmyndafræði á tvær endurhæfingardeildir á Kleppi.
          Stofnun deildar-15 á Kleppi fyrir sjúklinga með tvíröskun.
          Vettvangsteymi/Vettvangshjúkrun (Assertive Community Treatment).
          Virkt varnarteymi í geðdeildarbyggingu við Hringbraut haustið 2008.
          Samstarf hefur verið við heilbrigðisyfirvöld og heilsugæslu varðandi þjónustu á landsbyggðinni.
          Bráða-geðheilbrigðisþjónusta er veitt á Heilsuverndarstöðinni vegna þeirra aðstæðna sem komið hafa upp í íslensku samfélagi.
          Aukin samfélagsgeðþjónusta í undirbúningi.
          Aukin áhersla á vettvangsteymi og samstarf um þjónustu við Reykjavíkurborg og aðra opinbera aðila.
          Geðsvið Landspítala mun taka yfir geðlæknis- og sálfræðiþjónustu við Réttargeðdeildina að Sogni frá næstu áramótum

MEÐFERÐ
          Fjölskyldubrúin er nýtt meðferðarúrræði á göngudeild geðsviðs á Hringbraut.
          Hvatningarviðtöl („motivational interviewing“) á göngudeild áfengis á Hringbraut.
          Hópmeðferð fyrir börn sem eru í ofþyngd á BUGL.
          Klókir krakkar – kvíðameðferð fyrir börn á BUGL.
          Fjörkálfar – reiðistjórnun fyrir börn á BUGL.
          Félagsfærni fyrir börn á BUGL.
          Tóbaksvarnameðferðir fyrir geðsjúka.
          Hugræn atferlismeðferð og gagnreynd hópmeðferð hefur á undanförnum árum verið tekin upp í æ ríkara mæli á geðsviði.
          Í þróun/undirbúningi eru meðferðarúrræði fyrir sjúklinga með langvinna og flókna sjúkdóma.
          Tilraunaverkefni um hugræna atferlismeðferð í hóp fyrir unglinga með tilfinningaraskanir.

RANNSÓKNIR OG GÆÐAVERKEFNI
    Fjölmargar rannskóknir eru gerðar á geðsviði, í samstarfi heilbrigðisstétta á sviðinu og í samstarfi við starfsmenn annarra sviða Landspítala, heilsugæsluna í landinu, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, erlenda háskóla, Íslenska erfðagreiningu og Hjartavernd. Sem dæmi um viðamiklar rannsóknir eru:
          Gæðamat á þverfaglegu vettvangsteymi BUGL. QNIC gæðaúttekt á legudeildum BUGL. Alþjóðlegt samstarf. Úttektin hefur leitt til viðamikils umbótastarfs.
          Árangur fjölskylduhjúkrunar á geðsviði LSH.
          Hugræn atferlismeðferð fyrir einstaklinga með sálræna vanlíðan tengda streitu og álagi.
          Stuðningsúrræðið Fjölskyldubrúin fékk gæðastyrk frá LSH fyrir árið 2008 til að útbúa handbók og gæðamat á stuðningi.
          Innleiðing á rafrænu RAI-MH sem er m.a. notað til að skipuleggja meðferð sjúklinga en gefur einnig gott yfirlit yfir þær þjónustuþarfir sem sjúklingar hafa. Með innleiðingu á RAI-MH er hægt að nota upplýsingar úr því til að auka gæði þjónustunnar markvisst.
          Hvaða aðferðir notar starfsfólk á geðdeildum til að róa reiða og spennta sjúklinga og koma í veg fyrir að þeir sýni líkamlegt ofbeldi þeim sjálfum og starfsfólki til heilla.
          Í undirbúningi eru stuðningshópar fyrir starfsfólk sem sinnir sjúklingum á sjálfsvígsgát og yfirsetu á geðdeildum LSH.
          Þarfir og lífsgæði sjúklinga sem fá þjónustu á göngudeild Kleppi.
          Fræðsluröð um lífsstílsbreytingar hjá notendum sem eiga við geðraskanir að stríða á endurhæfingardeildum á Laugarásvegi og Reynimel.
          Markviss og skipulögð líkamleg heilsurækt á endurhæfingarþætti geðsviðs LSH.
          Árangur meðferðar á deild-15 metinn.
          Þjónustukannanir bæði fyrir unglinga og foreldra á legudeild BUGL.
          Rannsókn á lífsgæðum og líðan geðfatlaðra sem eru dagsjúklingar á dagdeild 28 og í sjálfstæðri búsetu í Hátúni 10.
          Gæðaráð geðsviðs stofnað innan geðsviðs LSH fyrir fimm árum.
          Gæðahandbók fyrir geðsvið og geðdeildir á geðsviði um þjónustu, verklag, mannauð og fjármál í mikilli þróun undanfarin ár í tengslum við stefnumótunarvinnu sviðsins.
          Fulltrúi notenda ráðinn á sviðsstjórn geðsviðs LSH. Hann er meðlimur í gæðaráði geðsviðs LSH.
          Rannsókn á orðræðugreiningu í umönnun lystarstolssjúklinga.
          Ýmsar rannsóknir á endurhæfingu geðfatlaðra eru að skila árangri með tilliti til atvinnu, menntunar, búsetu, félagslegra tengsla og bættra lífsgæða.
          Gerðar eru árangursmælingar á hópmeðferðarúrræðum.
          Rannsókn á meðgöngu- og fæðingarþunglyndi íslenskra kvenna og rannsókn á þunglyndi aldraðra.
          Rannsóknir á árangri hugrænnar atferlismeðferðar í hóp.
          Rannsóknir á ofvirkni og athyglisbresti.
          Rannsóknir á taugasálfræði geðklofa.
          Faraldsfræði og erfðir einhverfu og skyldra raskana á Íslandi, algengi einhverfu og skyldra raskana meðal Reykvíkinga með þroskahömlun á aldrinum 16–67 ára.

KENNSLA
          Í undirbúningi framhaldsnám í geðhjúkrun fyrir sjúkraliða sem hefst árið 2009.
          Í undirbúningi nám fyrir starfsfólk geðsviðs til að verða leiðbeinendur í viðbrögðum við ofbeldi.
          Í undirbúningi í annað sinn nám og þjálfun í Fjölskyldubrúnni fyrir fagfólk á geðsviði LSH.
          Nýtt námskeið fyrir nýráðna hjúkrunarfræðinga á geðsviði LSH. Kennsluhlutverk deildarkennara fyrir hjúkrunarfræðinema við Hjúkrunarfræðideild HÍ hefur verið endurskoðað og eflt.
          Kennsla í geðlæknisfræði hefur verið efld undanfarin ár og viðurkennd próf m.a. borin saman við ýmsa staði í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
          Síðastliðið vor gerðu geðsvið Landspítala og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands með sér samning um endurmenntun á sviði geðheilbrigðisþjónustu fyrir heilbrigðisstéttir á landinu. Geðsvið leggur til tvö námskeið á missiri.
          Sálfræðingar á geðsviði hafa haldið námskeið (fjögur námskeið) fyrir starfandi heimilislækna í viðtalstækni samkvæmt aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar.
          Starfsþjálfun sálfræðinema á geðsviði hefur verið bætt til muna.