Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 291. máls.

Þskj. 517  —  291. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 16. gr. laganna orðast svo: Eigi skal þó haffærisskírteini eða annað jafngilt skírteini gefið út fyrir skip nema fyrir liggi yfirlýsing tryggingafélags um áhafnartryggingu skv. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga, nr. 34/1985.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpið er samið í samgönguráðuneytinu í samvinnu við Siglingastofnun Íslands. Með því er lagt til að útgáfa haffærisskírteina geti eingöngu farið fram liggi fyrir yfirlýsing tryggingafélags um áhafnartryggingu skv. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga, nr. 34/1985. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að slíkt fyrirkomulag gildi eingöngu um skip sem eru 20 brúttótonn og minni. Rökin sem liggja að baki eru að við framkvæmd lögskráningar skal lögskráningarstjóri ganga úr skugga um að slík yfirlýsing sé fyrir hendi, annars verði ekki lögskráð á skip. Lögskráningarskylda samkvæmt gildandi lögum nær eingöngu yfir skip sem eru 20 brúttótonn eða stærri. Í ljósi þess var farin sú leið að skip sem ekki féllu undir lögskráningarlögin þyrftu að sýna fram á þessa yfirlýsingu tryggingafélags áður en þau fengju útgefið haffærisskírteini.
    Til þess að lögskráning geti alfarið farið fram með rafrænum hætti, sem leiðir til einföldunar og minni skriffinnsku, er lagt til að yfirlýsing tryggingafélags verði bundin við útgáfu haffærisskírteinis í staðinn fyrir framkvæmd lögskráningar. Breytingin mun eftir sem áður tryggja að skip hafi lögboðnar tryggingar hverju sinni, enda fær skip ekki lögskráningu nema fyrir liggi gilt haffærisskírteini. Hafi skip því gilt haffærisskírteini, leiðir það sjálfkrafa af sér að það hafi einnig yfirlýsingu tryggingafélags um áhafnartryggingu samkvæmt 2. mgr. 172. gr. siglingalaga, nr. 34/1985.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um lögskráningu sjómanna og
breytingu á lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003.

    Megintilgangur frumvarps til laga um lögskráningu sjómanna er að gera framkvæmd lögskráningar einfaldari en áður með rafrænni skráningu. Lagt er til að skipstjórar og/eða útgerðarmenn beri ábyrgð á lögskráningunni sjálfir í gegnum lögskráningarkerfið og að þeir annist framkvæmd hennar. Fyrir þá skipstjóra eða útgerðarmenn sem ekki vilja nýta sér þann möguleika verður engu síður hægt að lögskrá með svipuðu fyrirkomulagi og áður. Í frumvarpinu er lögð til sú meginbreyting frá gildandi lögum að lögskráningin tekur nú til allra sjómanna sem starfa um borð í skipum sem skráningarskyld eru hér á landi. Í gildandi löggjöf nær skráningin til allra sjómanna sem ráðnir eru til starfa á skipum sem skráð eru hér á landi og eru 20 brúttótonn eða stærri. Við framkvæmd lögskráningar verður ekki lengur gerð krafa um yfirlýsingu tryggingafélags og að líf- og slysatrygging sé í gildi. Þess í stað er samfara þessu frumvarpi gert ráð fyrir breytingu á lögum um eftirlit með skipum. Þar er lagt til að skip fái ekki haffærisskírteini nema í gildi sé lögboðin líf- og slysatrygging.
    Í 6. gr. frumvarpsins er að finna tvær nýjar gjaldtökuheimildir, annars vegar fyrir aðgang að lögskráningarkerfinu og hins vegar fyrir þau störf sem Siglingastofnun Íslands innir af hendi við framkvæmd lögskráningarinnar samkvæmt lögunum. Gera má ráð fyrir að tekjurnar muni falla í flokk annarra rekstrartekna samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins og færast á tekjuhlið ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að gjald fyrir aðgang að rafræna skráningarkerfinu verði 2.000 til 4.000 kr. á ári fyrir hvert skip en um 1.000 skip verða skráningarskyld. Ef þau nýta sér öll þessa heimild gæti gjaldið skilað 2–4 m.kr. á ári. Kostnaður Siglingastofnunar vegna lögskráningar sjómanna hefur hingað til verið um 2 m.kr. á ári. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að niður falli 13. tölul. 13. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, þar sem kveðið er á um að greiða skuli 550 kr. vegna lögskráningar sjómanna. Innheimta gjaldsins hefur skilað um 12–13 m.kr. undanfarin ár.
    Gert er ráð fyrir að gjöldin, sem teljast vera lögþvingaðar ríkistekjur, renni beint til reksturs Siglingastofnunar. Fjármálaráðuneytið telur það ekki heppilegt fyrirkomulag. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna að vera tekin í fjárlögum hverju sinni.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af gjaldtöku í tengslum við lögskráninguna muni lækka um 8–10 m.kr. Hins vegar er reiknað með að kostnaður aukist tímabundið um samtals 5 m.kr. til ársins 2011 vegna vinnu við kerfisbreytingar á lögskráningarkerfinu. Gert ráð fyrir að sá kostnaður muni rúmast innan fjárheimilda Siglingastofnunar á því tímabili.