Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 362. máls.

Þskj. 613  —  362. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um náttúruvernd,
nr. 44/1999, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    2. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
    Rétt til að starfa sem landvörður samkvæmt þessari grein hefur sá er lokið hefur námskeiði og prófi í landvörslu sem eru á vegum Umhverfisstofnunar eða hefur öðlast menntun er samsvarar efnisþáttum framangreinds námskeiðs að mati Umhverfisstofnunar. Í námskeiði til landvörslu skal m.a. fjallað um reglur varðandi umhverfi og náttúruvernd, öryggismál, stígagerð og fræðslu gesta á náttúruverndarsvæðum. Umhverfisstofnun er heimilt að taka gjald fyrir námskeið til landvörslu og próftöku er þátttakendur greiða. Upphæð gjalds má ekki vera hærri en sá kostnaður sem hlýst af námskeiðshaldi og vinnu vegna próftöku og setur ráðherra gjaldskrá að fengum tillögum Umhverfisstofnunar vegna þess. Umhverfisráðherra er heimilt að setja í reglugerð, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, nánari ákvæði um nám og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs árið 2008 fjölgaði stöðugildum landvarða talsvert og þarf því að mæta aukinni eftirspurn eftir landvörðum, en hlutverk þeirra er m.a. að annast eftirlit og fræðslu á náttúruverndarsvæðum, sbr. 1. mgr. 29. gr. laganna. Ákvæði um námskeið fyrir landverði hafa verið í reglugerð frá 1990, sbr. reglugerð um landverði nr. 61/1990. Hér er lagt til að lögfest verði heimild Umhverfisstofnunar til að halda námskeið og próf í landvörslu, svo og heimild stofnunarinnar til gjaldtöku vegna slíkra námskeiða og prófa. Í samræmi við almennar reglur um þjónustugjöld þykir rétt að hafa slíka gjaldtökuheimild í lögum. Þá er lagt til að Umhverfisstofnun hafi heimild til að meta þá menntun gilda sem samsvarar efnisþáttum námskeiðsins. Þannig ættu þeir sem telja má að hafi öðlast sambærilega menntun sem samsvarar þeim efnisþáttum er fólgnir eru í námskeiði til landvörslu að geta hagnýtt slíka menntun. Lagt er hér og til að kveðið sé á um það í lögum hvaða meginþættir þurfa að vera til staðar fyrir menn svo að þeir megi starfa við landvörslu, auk þess sem helstu þættir landvörslunáms eru tilgreindir.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1999,
um náttúruvernd, með síðari breytingum.

    Megintilgangur frumvarpsins er að styrkja heimild Umhverfisstofnunar til að taka gjald fyrir námskeið og próf fyrir landverði. Í frumvarpinu er mælt fyrir um að rétt til að starfa sem landvörður skv. 29. gr. laganna hafi sá sem hefur lokið námskeiði og prófi í landvörslu sem eru á vegum Umhverfisstofnunar eða öðlast jafngilda menntun að mati stofnunarinnar. Sömuleiðis er mælt fyrir um skýra lagaheimild fyrir Umhverfisstofnun til að taka gjald á móti kostnaði fyrir námskeið í landvörslu og framkvæmd prófs, en slík ótvíræð lagaheimild er ekki til staðar í dag.
    Undanfarið hafa milli 15 og 20 manns sótt landvarðanámskeið Umhverfisstofnunar á ári hverju og hefur stofnunin innheimt gjald fyrir námskeiðin en tekjur af gjaldinu hafa ekki staðið undir kostnaði. Kostnaður við námskeiðin hefur verið um 1,5 m.kr. á ári en tekjurnar um 1 m.kr.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það að lögum, hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs. Miðað við óbreytta aðsókn að landvarðanámskeiðum má ætla að tekjur Umhverfisstofnunar af námskeiðs- og prófgjöldum aukist um 0,5 m.kr. á ársgrundvelli.