Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 313. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 624  —  313. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um afnám laga nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, með síðari breytingum, og breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Vigfús Áskelsson frá fjármálaráðuneyti, Þóreyju Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Guðrúnu Zoëga frá kjararáði, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Stefán Baldursson frá Bandalagi háskólamanna og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandi Íslands, Prestafélagi Íslands, Viðskiptaráði Íslands og Seðlabanka Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að lög nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, verði felld brott í því augnamiði að færa eftirlaun þeirra til samræmis við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögin gildi áfram um núverandi hæstaréttardómara og forseta Íslands út starfstíma þeirra. Þá er í frumvarpinu gerður sá almenni fyrirvari um að áunnin réttindi haldist.
    Nefndin ræddi lagaskilaákvæði frumvarpsins með hliðsjón af því hvernig lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna er uppbyggt og með hliðsjón af því mikilvæga sjónarmiði að menn haldi áunnum réttindum. Nefndin ræddi vægi lífeyrisréttinda í kjörum alþingismanna og ráðherra og heimildir og skyldur kjararáðs til að taka mið af þeim réttindum við ákvarðanir um laun. Þá ræddi nefndin hugmyndir um að þeir sem frumvarpið tekur til gætu valið sér lífeyrissjóð en það er í andstöðu við það fyrirkomulag að skylda almennt launafólk til að greiða lífeyrisiðgjöld í tiltekinn lífeyrissjóð.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir og Ármann Kr. Ólafsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 2. mars 2009.



Árni Þór Sigurðsson,


varaform., frsm.


Ellert B. Schram.


Gunnar Svavarsson.



Jón Bjarnason.


Birkir J. Jónsson.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.



Ragnheiður E. Árnadóttir,


með fyrirvara.


Ármann Kr. Ólafsson,


með fyrirvara.