Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 356. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 862  —  356. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

Frá 2. minni hluta viðskiptanefndar.



    Annar minni hluti leggur til að tvenns konar breytingar verði gerðar á frumvarpinu. Annars vegar eru lagðar til breytingar á 2. og 8. gr. sem fjalla um upplýsingagjöf til hlutafélagaskrár. Telur 2. minni hluti þá upplýsingagjöf sem felst í lokamálsliðum greinanna of viðurhlutamikla en þar er kveðið á um að félag skuli í tilkynningum til hlutafélagaskrár sundurliða upplýsingar um starfsmenn félagsins samkvæmt stöðu þeirra eftir skipulagi. Það krefst mikillar vinnu að taka saman upplýsingar af þessu tagi og telur 2. minni hluti upplýsingagjöf af þessu tagi ekki samræmast þeim tilgangi frumvarpsins að jafna hlut kynjanna í áhrifastöðum. Því leggur 2. minni hluti til að framangreind ákvæði falli brott og eftir standi að félög skili sundurliðuðum upplýsingum um hlutföll kynja í stjórn. Hins vegar leggur 2. minni hluti til að ákvæði 4. gr. frumvarpsins um starfandi stjórnarformenn verði takmarkað í þá veru að það nái einungis til félaga sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda sem er sama viðmið og er í 79. gr. a laga um hlutafélög um skyldu félags til að samþykkja starfskjarastefnu fyrir félagið.
    Annar minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 31. mars 2009.



Birgir Ármannsson,


frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Árni M. Mathiesen.



Jón Magnússon.