Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 386. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 924  —  386. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Oddsson frá Þingvallanefnd og Gylfa Kristinsson frá félags- og tryggingamálaráðuneyti.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja að Þingvallanefnd geti samið um lengd leigutíma á lóðum undir sumarhús óháð ákvæðum laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, en þau áskilja að leigusamningar frístundahúsa séu gerðir til 20 ára. Þeir samningar sem í gildi eru í þjóðgarðinum eru til styttri tíma eða 10 ára og þykir það nauðsynlegt til þess að unnt sé að grípa til ráðstafana með tiltölulega skömmum fyrirvara til að tryggja að markmið laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum náist.
    Nefndin bendir á að jafnframt kunna ýmis önnur ákvæði laganna að vera í nokkru ósamræmi við lög um þjóðgarðinn en nefndin minnir einnig á þá meginreglu að sérlög ganga framar almennum lögum og vísar einnig í því sambandi til sérstöðu þjóðgarðsins á Þingvöllum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Birgir Ármannsson, Ólöf Nordal, Sigurður Kári Kristjánsson og Jón Magnússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. apríl 2009.



Árni Páll Árnason,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Kristrún Heimisdóttir.



Árni Þór Sigurðsson.


Siv Friðleifsdóttir.