Endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja

Þriðjudaginn 19. maí 2009, kl. 14:49:10 (74)


137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Hvað hinn ágæti ráðgjafi Mats Josefsson kann að hafa sagt um þetta þekki ég ekki í einstökum atriðum en ég hef séð sjónarmið hans og hann fór m.a. yfir frumvarpið áður en það var lagt fram að nýju. (Gripið fram í.) Það gerði hann víst, hv. þingmaður. Það voru teknar til greina ýmsar athugasemdir hans og sú opnun sem núna er komin inn í 1. gr. frumvarpsins er m.a. á grundvelli ábendinga frá þessum ágæta ráðgjafa. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að reyna að halda því fram að ég fari með rangt mál. Ég hef að þessu mörg vitni í fjármálaráðuneytinu ef hv. þingmaður vill fá aðgang að þeim. Þá þarf ekki að eyða meira púðri í það.

Ég tel mjög líklegt að slík þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem hér gætu komið til greina væru fyrirtæki annaðhvort í hreinu fákeppnis- eða einokunarumhverfi, það er mjög líklegt að eðli málsins samkvæmt væri það þannig. (TÞH: Þá er það ekki samkeppni.) Þá eru þau bara í þeirri stöðu og það gerir hana auðvitað á margan hátt enn viðkvæmari og vandasamari úr að vinna. Eðli starfseminnar skiptir líka miklu máli. Sum starfsemi er þess eðlis og hún er ákaflega viðkvæm og eitthvert opið ferli er erfitt við endurskipulagningu og úrvinnslu þeirra mála einfaldlega vegna eðlis starfseminnar sem á bak við liggur. Þetta þurfa menn að hafa í huga.

Ég tel eðlilegt að menn skoði þetta í þinginu og í þingnefnd og eins og ég hef áður sagt er sjálfsagt að taka öll sjónarmið inn í myndina. En ég á erfitt með að átta mig á að það geti verið svo hættulegt sem hér á að fara að gera að alþjóðlegri og þekkti fyrirmynd, jafnvel þótt hún hafi gefist mismunandi og við mismunandi aðstæður. Ef við reynum að aðlaga það að okkar veruleika og okkar þörfum eins vel og við mögulega getum og það hefur verið reynt að gera hér, með því t.d. að gera greinarmun á stöðunni í Svíþjóð og hér, en hafa það samt sem fyrirmynd að breyttu breytanda eftir því sem það getur orðið, held ég að það hljóti að vera í lagi að þetta tæki sé til staðar ef og þegar á það reynir. Það er niðurstaða í samstarfi banka og stjórnvalda að málum væri betur komið fyrir þar en í úrlausn bankanna sjálfra.