Endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja

Þriðjudaginn 19. maí 2009, kl. 16:49:20 (103)


137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[16:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Við lestur þessa frumvarps vakna ýmsar spurningar. Hér hafa menn komið upp hver á fætur öðrum og spurt spurninga. Reyndar er búið að spyrja nú þegar flestra þeirra spurninga sem ég hafði hugsað mér að bera fram, en enn hafa ekki komið svör við þeim. Ég ætla því að reyna að hafa þetta tiltölulega stutt og einfalt og bera fram sem fæstar spurningar svo hæstv. fjármálaráðherra ruglist vonandi ekki í ríminu og geti þá einbeitt sér að fáum og skýrum spurningum.

Í fyrsta lagi spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að ekki er hægt að vinna þessa vinnu í bönkunum? Jú, menn hafa haft einhverjar efasemdir um að það fólk sem þar starfar sé til þess hæft. Hv. þm. Þór Saari talaði ekki fallega um starfsmenn bankanna, virtist hins vegar telja að starfsmenn annarra fyrirtækja væru mjög vel til þess fallnir að taka við þeim fyrirtækjum. Það virðist því vera mikill eðlismunur á þeim sem starfa í bönkum og þeim sem starfa fyrir önnur fyrirtæki. Hvaða viðhorfi lýsir líka þetta frumvarp hjá fjármálaráðherra til starfsmanna íslensku bankanna? Til hvers eru þeir eiginlega í bönkunum á launum áfram ef ekki á að nýta þekkingu þeirra sem ekki hvað síst er á því sviði sem þetta eignaumsýslufélag á einmitt að starfa? Hugsar hæstv. fjármálaráðherra bankana sem einhvers konar sóttkví fyrir óæskilegt fólk og ætlar þó að hafa áfram þar á launum en sem allra fæst hlutverk að vinna? Bankarnir starfa einmitt á því sviði sem þessu félagi er ætlað að leysa og hafa reyndar sjálfir, eins og getið er um í frumvarpinu, stofnað eigin eignaumsýslufélög. Hvers vegna geta þau félög ekki sinnt þessu hlutverki? Hvernig stendur á því að ríkið ætlar að fara út í sérstaka rekstrarráðgjöf og þá væntanlega að veita öðru ríkisfyrirtæki rekstrarráðgjöf um hvernig eigi að koma þriðja ríkisfyrirtækinu aftur á lappirnar? Svo malda menn í móinn og halda því fram að hér sé ekki um óþarfa ríkisvæðingu að ræða. Með þessu er verið að ríkisvæða allt sem hægt er að ríkisvæða og setja þetta á sem allra fæstar hendur og þá hendur sem tengjst fjármálaráðuneytinu beint. Eins mikið og vitnað er í Svíþjóð þá gleyma menn því iðulega að þar var það, eins og nokkrir af félögum mínum hafa þegar bent á, grundvallaratriði að þetta snerist um aðskilnað viðskipta og stjórnmála. Hér snýst þetta um að tengja viðskiptin og þessi félög nánari böndum við fjármálaráðuneytið sem stýrt er af hæstv. fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni. Ég tek undir það sem menn hafa sagt um þann ágæta mann, ég treysti honum ágætlega til að sinna mörgum af þeim hlutverkum sem þarf að sinna í ráðuneyti hans. En ég ítreka það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson benti á, við setjum ekki lög fyrir tiltekna menn eða út frá mannkostum ákveðinna manna. Við setjum almenn lög sem eiga að geta átt jafn vel við, sama hver sér um að framfylgja þeim.

Ég mundi gjarnan vilja að hæstv. fjármálaráðherra svaraði því hvers vegna ekki er hægt að vinna þetta í bönkunum og svo ítreka ég spurninguna sem kom fram áðan: Hvernig stendur á því að það skiptir máli að hans mati hver er í ráðuneytinu þegar lögin eru sett?