Áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda

Miðvikudaginn 20. maí 2009, kl. 14:26:30 (130)


137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda.

[14:26]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu er eitt veigamesta réttlætismál í íslensku samfélagi um langa hríð. Það varðar ekki einungis eignarrétt þjóðarinnar á auðlind okkar í hafinu heldur einnig afkomu þeirra byggðarlaga sem frá upphafi Íslandsbyggðar hafa nýtt sér fiskimiðin við landið.

Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting á þessu kerfi og mun ekki leiða hrun yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn og hófsöm leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.

Já, málið snýst um löngu tímabæra leiðréttingu á ranglátu framsalskerfi fiskveiðiheimilda, kerfi sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun. Við erum hér að tala um kerfi sem samkvæmt úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun þar sem menn eru tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. (Gripið fram í.) Kerfi sem upphaflega var þannig smíðað að heimildir til nýtingar á fiskimiðum landsins voru færðar í hendur útgerðunum endurgjaldslaust. Þessar fiskveiðiheimildir eru nú meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss sem gengur kaupum, leigum og sölum sem skilið hafa eftir blæðandi byggðarlög í sárum.

Þetta óréttláta kerfi felur í sér sams konar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust. Framsal kerfis fiskveiðiheimildanna, kvótakerfið, er eins og hver önnur mannasetning. Það var illa ígrundað í upphafi og leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum, atvinnubrest sem risti mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi hér á suðvesturhorninu.

Nú loksins stendur til að leiðrétta þetta óréttlæti og stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er algjörlega skýr í því efni. Ríkisstjórnin hefur vilja til þess að gera nauðsynlegar og löngu tímabærar breytingar á þessu kvótakerfi. Nú er lag og nú er nauðsyn því að að óbreyttu eigum við það á hættu að fiskveiðiauðlindir þjóðarinnar verði einfaldlega teknar upp í erlendar skuldir og hverfi þar með úr höndum okkar Íslendinga.

Svo vel hefur útgerðinni tekist til, eða hitt þó heldur, við að höndla þá miklu gjöf sem henni var færð á kostnað byggðarlaganna fyrir um aldarfjórðungi síðan. Og nú er gamli grátkórinn, sem svo var kallaður hér á árum áður, aftur tekinn að hljóma í háværu harmakveini. Nú hrópa menn um yfirvofandi hrun, tala eins og hér eigi að umbylta kerfinu á einni nóttu.

Frú forseti. Málflutningur þeirra sem harðast hafa talað að undanförnu gegn hinni svokölluðu fyrningarleið er í raun ekki í fullu samræmi við tilefnið heldur meira í ætt við sérhagsmunagæslu undir yfirskini stjórnmála. Og eins og fram kom í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra, Jóns Bjarnasonar, er það yfirlýstur ásetningur stjórnvalda að hafa samráð við útgerðina um fyrirhugaðar breytingar á þessu kerfi. Það er ætlun stjórnvalda að gefa hagsmunaaðilum kost á að vera hluti af þeirri sátt sem þarf að ná við sjálfa þjóðina en ekki bara útgerðina um þetta mál.