Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 28. maí 2009, kl. 12:17:00 (442)


137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:17]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr):

Virðulegi forseti. Borgarahreyfingin fagnar því að hið mikilvæga mál um aðildarviðræður að Evrópusambandinu sé nú loksins lagt fyrir Alþingi og fagnar því jafnframt með hvaða hætti það er gert. Það er nýmæli að Alþingi sé falið að ná niðurstöðu um mál án þess að fyrir liggi alger samstaða framkvæmdarvaldsins um samþykki málsins. Þetta heitir að efla þingræðið og veitir nú ekki af hjá stofnun sem lengi hefur verið eins og afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið.

Borgarahreyfingin tekur ekki afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu þar sem einfaldlega er ekki hægt að leggja mat á kosti og galla aðildar fyrr en að loknum samningaviðræðum. Borgarahreyfingin telur einnig að ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu sé þjóðarinnar og málið verði að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þess vegna styður Borgarahreyfingin aðildarviðræður að því gefnu að tryggt sé fyrir fram að málið fái lýðræðislega meðferð í undanfara þjóðaratkvæðagreiðslu og að aðildarviðræðurnar sjálfar verði leiddar af nefnd fagfólks með aðkomu og ráðgjöf erlendra sérfræðinga.

Skilyrði Borgarahreyfingarinnar hafa þegar verið kynnt hæstv. utanríkisráðherra og eru þessi:

1. Að tryggð verði gagnsæ og hlutlaus miðlun fræðslu um samninginn frá sérstakri upplýsingastofu á vegum Alþingis. Stofan skal skipuð fagfólki og taka mið af reynslu nágrannaþjóða við þjóðaratkvæðagreiðslur. Endanlegur samningur skal vera almenningi aðgengilegur.

2. Að samninganefndin verði skipuð á faglegum forsendum og njóti ráðgjafar að minnsta kosti tveggja óháðra erlendra sérfræðinga.

3. Að tryggt verði jafnt vægi atkvæða allra landsmanna við þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.

Ekki er að sjá á þingsályktunartillögunni sem núna liggur fyrir að þessum skilyrðum sé mætt. Rétt er að ítreka að þessi þrjú skilyrði snúa öll að lýðræðislegri meðferð málsins og af hálfu Borgarahreyfingarinnar eru þau ekki verslunarvara. Vonandi munu þessi atriði ná fram að ganga áður en kemur til endanlegrar afgreiðslu málsins hér í þinginu.

Eins og við höfum fengið forsmekkinn af í þeim umræðum sem hér hafa farið fram er öllum fjórflokknum mikið í mun að í þeim heyrist varðandi þessa tillögu um aðildarviðræður og má búast við langri röð á mælendaskrá sem mun því miður að mestu samanstanda af sömu endurtekningum, útúrsnúningum og hártogunum aftur og aftur.

Borgarahreyfingin vill minna á að það er þjóðarinnar að ákveða um samþykkt eða synjun aðildar að Evrópusambandinu, ekki þingsins. Því eru allar langlokur um málið á þessu stigi til þess eins fallnar að tefja málið og gera almenningi enn þá erfiðara um vik að átta sig á því. Umræðan hér á þinginu á að vera málefnaleg og upplýsandi fyrir almenning og í þessu mikilvæga máli vonar Borgarahreyfingin að þingmenn sýni þingi og þjóð þá virðingu að setja umræðu um þetta mikilvæga mál ekki ofan í gamaldags skotgrafapólitík heldur veita því brautargengi með hraði og koma því til viðeigandi nefndar hið fyrsta.

Þar sem skilyrði Borgarahreyfingarinnar eru komin fram teljum við ekki tilefni til frekari málalenginga og munum því ekki setja á frekari ræðuhöld um málið í þessari umræðu.