Lög um atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 03. júní 2009, kl. 14:03:36 (720)


137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

lög um atvinnuleysistryggingar.

[14:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín tengist lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, með áorðnum breytingum frá 2008–2009. Í efnahagsólgunni sem yfir þjóðina gekk á haustdögum 2008 og er enn við lýði var gripið til ýmissa aðgerða. Meðal annars var lögum um atvinnuleysistryggingar breytt í þá veru að þær eru greiddar að hluta samhliða minnkuðu starfshlutfalli, samanber greinar 22 og 24. Þessi ráðstöfun hefur gert ýmsum fyrirtækjum kleift að halda áfram starfsemi sinni og halda starfsmönnum sínum sem skiptir afar miklu máli bæði efnahagslega og félagslega.

Hins vegar virðist ekki liggja alveg ljóst fyrir hvert er vinnuréttarsamband launagreiðendanna annars vegar og launþegans hins vegar þann tíma sem atvinnuleysistryggingabætur eru greiddar. Tökum dæmi um að starfshlutfall sé minnkað með þeim hætti að einn dagur í viku, föstudagur, sé greiddur sem atvinnuleysisbætur. Þá vaknar sú spurning hvort vinnuréttarsamband rofni þegar vinnu lýkur á fimmtudegi og fram á mánudagsmorgun þegar vinna hefst að nýju eða ef ein vika er greidd sem atvinnuleysisbætur hvort vinnuréttarsamband rofnar þá vikuna.

Þetta skiptir, frú forseti, launþegann afar miklu máli. Það þarf að vera algjörlega skýrt hvort vinnuréttarsamband er á milli launagreiðanda og launþegans eða hvort rof verður á vinnuréttarsambandi sem hlýtur þá sjálfkrafa að skerða réttindi launþegans á ýmsum sviðum, þar á meðal greiðslur í lífeyrissjóð, félagsleg réttindi, veikindaréttindi, örorkubætur, slysabætur og margt annað. Því spyr ég hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra: Telur hann tryggt að vinnuréttarsamband haldist á milli launagreiðanda og launþega eða verður rof þarna á milli?