Staða heimilanna

Miðvikudaginn 03. júní 2009, kl. 15:30:12 (753)


137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[15:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. málshefjandi útlistaði hér ágætlega erfiðleikana sem við er að glíma. En ég verð að segja að mér fannst minna fara fyrir raunsæi í máli hans eða uppbyggilegum tillögum um úrlausnir. Það minnti mig dálítið á málflutninginn hér fyrir helgi þegar talsmaður Framsóknarflokksins fór hamförum gegn hugmyndum um að auka tekjur ríkissjóðs en fór þó hér upp í óundirbúnum fyrirspurnatíma daginn eftir og krafðist hækkunar atvinnuleysisbóta. Er þetta alveg svona auðvelt?

Ef ríkissjóður á að leggja af mörkum í aðgerðir af hvaða tagi sem er verður hann að hafa til þess tekjur og bolmagn. Heimilin í landinu hafa að sjálfsögðu orðið fyrir miklu áfalli, sérstaklega þau sem misst hafa tekjur, þar sem menn hafa misst atvinnuna og orðið fyrir tekjusamdrætti á sama tíma og þeir glíma við þyngri skuldabyrði.

En það er ágætt að hafa það í huga að mikill skuldavandi íslenskra heimila er því miður ekki nýtilkominn. Hann er ekki bara afleiðing bankahrunsins frá því í haust. Þegar Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn 1995 voru skuldir heimilanna rétt undir 150% af ráðstöfunartekjum. Þær voru þá þegar með því hæsta sem þekktist. Þær gerðu ekkert annað en að aukast árin á eftir og svo var komið að árin 2001–2002 að þær voru rétt undir 200% af ráðstöfunartekjum. Ískyggileg mörk. Þær lækkuðu lítillega árin 2003 og 2004 en hvað gerðist árið 2005 í góðærinu mikla? Þær fóru yfir 200% af ráðstöfunartekjum og hafa verið þar síðan, hækkuðu árin á eftir í góðærinu 2006 og 2007. Og hvar stóðu þær um síðustu áramót? Jú. Það má ætla að þær hafi verið 272% af ráðstöfunartekjum, það má ætla að þær hafi verið um 136,5% af landsframleiðslu.

Það er alveg sama á hvaða mælikvarða við skoðum þetta og þegar við berum þetta saman við skuldir heimila t.d. í öðrum OECD-ríkjum var staðan orðin grafalvarleg og ískyggileg á Íslandi fyrir mörgum árum síðan. Menn voru ótrúlega dofnir gagnvart þeim mikla vanda sem þarna hlóðst upp þegar skuldir íslenskra heimila og skuldir atvinnulífsins slógu metið innan OECD um svipað leyti.

Mér finnst undarlegt að menn skuli ræða þessa hluti hér á þeim forsendum að það sé spurning um vilja hvort einhverjir vilji reyna að aðstoða heimilin eða ekki, að okkur greini á um það í þessum sal. Spurningin er um úrræði og getu til þess og með hvaða aðferðum við beitum takmörkuðum fjármunum þannig að það komi sem mest að gagni.

Það er alveg ljóst og ítrekuð talnagögn staðfesta að það er um einn tíundi til einn sjötti hluti heimilanna sem á við umtalsverðan vanda að stríða og einhver hluti þess hóps mun ekki ráða við skuldir sínar nema með umtalsverðri aðstoð. Á þeim tímum sem við gríðarlegan vanda í ríkisfjármálum er að kljást, þegar ríkissjóður tekur á sig næstum því óviðráðanlega skuldabyrði af öðrum ástæðum, verðum við ekki þá að leita leiða til að nota það bolmagn sem við höfum með markvissum og hnitmiðuðum hætti í þágu þeirra sem sannarlega og mest þurfa á aðstoð að halda? Jú, ég held það. (Gripið fram í.)

Það eru slíkar leiðir sem menn leita að og hafa verið að leita að. Töfralausnirnar, yfirboðin og popúlisminn hjálpa ekki nokkrum manni nokkurn skapaðan hlut heldur raunhæfar aðgerðir (Gripið fram í.) sem eru í samræmi við getu þjóðarbúsins og við gætum orðið sammála um að séu viðráðanlegar. Það er það sem við erum að ræða og ég vona að sama raunsæi eigi eftir að ríkja í þessum herbúðum og ríkir núna í samtölum okkar við aðila vinnumarkaðarins. Þar horfast menn í augu við alvöru málsins en ég held að stjórnarandstaðan eigi svolítið eftir í þeim efnum. (Gripið fram í.)

Ég vil svo að lokum geta þess að reglugerð um skilyrði þess að eftirgjöf skulda manna utan atvinnurekstrar, sem er mikilvægur þáttur í því að bankakerfið geti síðan (Forseti hringir.) farið í þá skuldaúrvinnslu sem þar stendur yfir, er nú tilbúið í drögum og verður gefin út einhvern næsta dag. (Forseti hringir.)