Umræða um Icesave

Föstudaginn 05. júní 2009, kl. 15:57:15 (999)


137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[15:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er viðvaningur í þessu öllu saman, nýr á þingi. En ég verð að segja að mér ofbýður þessi málsmeðferð, að við skulum standa frammi fyrir því að hér séu hugsanlega að bresta á samningar um mestu skuldbindingar sem við Íslendingar höfum tekið á okkur og það fáist ekki að ræða þetta mál í þinginu.

Ég skora á virðulegan forseta að beita sér fyrir því að hér verði umræður um þetta mál þannig að málsatvik megi koma í ljós og fólk geti þá myndað sér einhvers konar skoðanir og rökrætt um þennan samning vegna þess að það er ekki hægt og það er ekki bjóðandi að skrifa upp á einhvern samning þar sem niðurstaðan er ekki vituð.