Umræða um Icesave

Föstudaginn 05. júní 2009, kl. 16:04:39 (1005)


137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Við komum hér enn undir liðnum Fundarstjórn forseta og ég trúi því ekki að óreyndu að ætlast sé til þess að við höldum áfram auglýstri dagskrá og ræðum það sem hér var sett á blað áður en þeir atburðir gerðust í morgun sem varða þetta Icesave-mál. Það er ekki hægt að ætlast til þess af þingmönnum þjóðarinnar sem eru kjörnir til að starfa samkvæmt fullri samvisku og hreinskilni að þeir standi hér og ræði mál samkvæmt auglýstri dagskrá en fari ekki í þau mál sem virkilega þarf að ræða eins og rætt hefur verið í allan dag.

Ég vil biðja hæstv. forseta um að taka málið aftur til athugunar og tek undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Péturs Blöndals, um að afboða þessa dagskrá og auglýsa nýjan fund þar sem við förum að ræða þau mál sem skipta máli. (Forseti hringir.) Ég trúi því ekki að við eigum að fara að standa hér og ræða um tilskipanir Evrópusambandsins í ljósi ástandsins.