Umræða um Icesave

Föstudaginn 05. júní 2009, kl. 16:35:04 (1032)


137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:35]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að Alþingi hefur veitt ríkisstjórn umboð til þess að leiða til lykta samningaviðræður vegna þessa máls. Það umboð var veitt með atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks og hjásetu þingmanna Framsóknarflokks fyrir áramót. (Gripið fram í: Skilyrt.) Það var ekki skilyrt að öðru leyti en því að samningar ættu að vera á forsendum hinna sameiginlegu viðmiða. Ekkert annað hefur komið fram í þessu máli en að unnið sé á forsendum hinna sameiginlegu viðmiða. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega sú staðreynd sem liggur fyrir í málinu.

Þrátt fyrir það að ríkisstjórnin hafi fullt umboð til að gera þetta á eigin spýtur var samt ákveðið að leita samráðs við stjórnarandstöðuna (Gripið fram í.) og ræða við fulltrúa stjórnarandstöðunnar og utanríkismálanefnd um málið.

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Á þeim forsendum auðvitað að það sé vilji til þess að reyna að skapa hér frið og sátt um meðferð þessa máls. (Forseti hringir.) En þessi viðbrögð stjórnarandstöðunnar hljóta að vekja efasemdir um hvort (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) sjálfstæðismenn og framsóknarmenn þora (Gripið fram í.) að standa í lappirnar og standa við þá afstöðu sem þeir hafa þegar markað í þessu máli.