Nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála

Fimmtudaginn 11. júní 2009, kl. 12:34:14 (1198)


137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Framsóknarforustan hefur síðustu daga notað þennan ræðustól til þess að kalla út í þjóðfélagið boð um það að allt væri að fara til andskotans, að Icesave muni taka börn þessa samfélags og leggja þau í skuldafjötra eins og ánauðugt fólk. (Gripið fram í: Það er rétt.) Framsóknarflokkurinn hefur talað um að hér væri (Gripið fram í.) — það er tóm vitleysa. Framsóknarflokkurinn hefur talað um að hér væri verið að stefna í þjóðargjaldþrot. Það er tóm vitleysa og við eigum ekki að tala með þessum hætti. (BJJ: Þú ert að skuldsetja þjóðina.)

Ég get vel fallist á það hjá hv. þingmanni að menn eins og hann tala oft með jákvæðum hætti en boð flokksins hafa verið mjög neikvæð og hafa talað niður kjarkinn í þjóðinni. Munurinn á þessari tillögu og málflutningnum síðustu daga hjá Framsóknarflokknum er sá að Framsóknarflokkurinn bókstaflega boðar bara svartnætti á meðan þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem hér hafa talið til þessa, hafa verið gagnrýnir á ríkisstjórnina en þeir hafa leyft sér þann munað að benda (Forseti hringir.) á fullt af möguleikum. (Gripið fram í.) Enn hefur Framsóknarflokkurinn ekki komið og haldið hér ræðu og bent á þá (Forseti hringir.) möguleika sem fyrir eru í samfélaginu.