Nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála

Fimmtudaginn 11. júní 2009, kl. 12:38:09 (1201)


137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera smáathugasemd við það að lög og reglur um hvernig umhverfismati er háttað séu í góðu lagi vegna þess að það er allt of tafsamt ferli. Það eru allt of miklir möguleikar til þess að tefja það ferli út í hið óendanlega.

Það sem jafnframt er alvarlegt eru hlutir eins og gerðust hérna í fyrra þegar fyrirtæki sem var langt komið með að ákveða fjárfestingu, stóra fjárfestingu, var stöðvað í þeirri ætlan sinni með því allt í einu að setja virkjun og verksmiðju í samræmt umhverfismat, eins og umhverfisráðherra Samfylkingarinnar gerði á sínum tíma. Við verðum að koma í veg fyrir slík slys.

Því er mjög brýnt að skoða þessa þrjá hluti sem ég talaði um áðan og stytta ferlið til að við fáum sem fyrst fjárfestingar inn í landið, hæstv. utanríkisráðherra.