Nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála

Fimmtudaginn 11. júní 2009, kl. 13:06:07 (1215)


137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[13:06]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Það skiptir öllu máli í þeirri stöðu sem nú er að menn vinni saman. Sjálfstæðismenn hafa vonandi sýnt gott fordæmi í því að opna þar dyr ásamt öðrum í stjórnarandstöðu og þá skiptir miklu máli að samstaða náist, samræða og breidd til að komast að niðurstöðu, taka ákvarðanir. Eitt af því sem er kannski brúklegast við þessar tillögur, auk þess að vera mjög vel ígrundaðar, er tímasetningin. Það er tímasetning sem er strax, að ljúka þorra tillagnanna til afgreiðslu og framkvæmda á fjórum vikum og síðan koma þættir eins og peningastefnan, gjaldmiðilsskoðun og fleira sem er ætlað að ljúka á þremur mánuðum. Það er þannig sem þarf að vinna. Það gengur ekki að hafa einhverja umræðupólitík eins og er að ryðja sér til rúms í tísku stjórnmálanna undanfarin ár. Það gengur að taka af skarið strax og þar vil ég líka taka undir orð hv. þm. Sigmundar Davíðs, formanns Framsóknarflokksins, sem hefur hvatt til að það sé tekið á, áratökin verði snörp og skörp, stefnan verði tekin, kúrsinn verði tekinn að það verði siglt að stefnunni.