137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að sjá það að fyrrverandi formaður okkar, Halldór Ásgrímsson, er kominn til landsins. Hann hefur, skilst mér, verið starfandi í Danmörku, í Kaupmannahöfn, og Danmörk er einmitt hluti af Evrópusambandinu. Allir sem þekkja til Halldórs Ásgrímssonar ættu að vita það að hann hefur lengi vel haft mikinn áhuga á því að Ísland gangi inn í Evrópusambandið en fékk ekki mikinn hljómgrunn fyrir þær hugmyndir sínar innan flokksins þegar hann var formaður.

Síðan þá hafa að vísu held ég verið tveir ef ekki þrír formenn, Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir og núna hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Það má því gera ráð fyrir að ýmislegt hafi þróast innan flokksins síðan að Halldór Ásgrímsson var formaður.

Mig langar hins vegar til að minna aðeins á að við tölum mjög oft um það, og má heyra það sérstaklega frá samfylkingarfólki á þinginu, að með því að ganga í Evrópusambandið munum við leysa öll þau vandamál sem við erum að fást við í dag. Mér þætti mjög athyglisvert að ræða kannski einmitt um þau lönd sem eru í Evrópusambandinu og gengu í Evrópusambandið fyrir nokkrum árum síðan, eins og Lettland, Litháen og Eistland. Þetta eru allt lönd sem hafa verið með tengingu við evruna og eiga núna í alveg gífurlegum efnahagslegum vandamálum. Vextir hjá þeim eru í hæstu hæðum. Mér skilst að samdráttur í landsframleiðslu í Lettlandi sé tæplega 30% núna á fyrsta ársfjórðungi og þeir eru í miklum vanda við að halda þessari tengingu við evruna sem Samfylkinguna virðist dreyma, ég vil kannski ekki orða það eins og ég hef áður orðað það, dreyma blauta drauma um.

En ég sé hins vegar ekki alveg hvað það tengist, sem hv. þingmaður talaði um hér, orðum Halldórs Ásgrímssonar í fréttunum (Forseti hringir.) í gær sem framsóknarmenn í dag ætla að gera varðandi Evrópusambandið.